Fréttir
  • IMG_5729

Áfram veginn í átt að fullu jafnrétti. Gleðilega Hinsegin daga 2019!

8. ágú. 2019

Hafnarfjarðarbær mun halda áfram að ryðja veginn í átt að fullu jafnrétti - lagalegu og samfélagslegu og mun, líkt og aðrir landsmenn, fagna fjölbreytileikanum næstu daga og munu fagnaðarhöldin ná hámarki sínu í gleðigöngunni laugardaginn 17. ágúst. Í ár verður sú breyting á að sveitarfélagið verður ekki með eigin bíl í gleðigöngunni en starfsmenn og bæjarfulltrúar munu þess í stað taka þátt í göngunni á eigin forsendum með fjölskyldu og vinum. Jafningjafræðsla Vinnuskóla Hafnarfjarðar hefur málað Linnetstíginn í miðbæ Hafnarfjarðar í öllum regnbogans litum sem lið í því að fagna fjölbreytileikanum og mun á meðan á Hinsegin dögunum stendur standa fyrir viðburði í Hamrinum - ungmennahúsi Hafnarfjarðar: Ung og hinsegin / Young and queer . Hinseginkvöldi sem haldið er af ungu fólki fyrir ungt fólk. 

Hinsegin fræðsla er orðin fastur liður í hafnfirsku skólasamfélagi 

Hafnarfjarðarbær og Samtökin ´78 undirrituðu í desember 2015 samstarfssamning um fræðslusamstarf sem hófst á árinu 2016. Samningurinn hefur síðan þá verið endurnýjaður árlega og hafa þær kannanir og rannsóknir sem gerðar hafa verið bæði meðal nemenda og starfsmanna sýnt að fræðslan fellur í góðan jarðveg. Hinsegin fræðsla, á vegum starfsfólks Samtakanna ´78, er orðinn fastur liður í hafnfirsku skólasamfélagi.

Lagt var upp með að samstarf við Samtökin ´78 hefði þríþættan tilgang: (1) að fræða ungmenni um fjölbreytileika mannlífsins til að draga úr fordómum, (2) að styðja við ungt fólk sem er á kynþroskaaldri með fjölbreyttri fræðslu og (3) að færa hafnfirskum ungmennum og fjölskyldum þeirra aðgang að ráðgjöf um persónuleg málefni hjá Samtökunum 78 án kostnaðar. Til að uppfylla þennan þríþætta tilgang var farið af stað með þrjú verkefni:

  • Allir kennarar/starfsfólk grunnskóla fengu sex klukkustunda fræðslu um hinsegin málefni skólaárið 2016-2017. Á hverju ári fær nýtt starfsfólk skólanna sömu fræðslu
  • Allir nemendur í 8. bekk fái tveggja kennslustunda fræðslu um hinsegin málefni á viðkomandi skólaári
  • Hægt er að fá ráðgjöf hjá Samtökunum 78 án kostnaðar

Meginmarkmið samnings frá upphafi hefur verið að auka þjónustu við nemendur og starfsfólk grunnskóla með fræðslu um málefni hinsegin fólks á grunni jafnréttis og sjálfsagðra mannréttinda. Erfitt er að meta raunverulegan og mælanlegan árangur af samstarfinu en ætla má að hafnfirsk ungmenni verði með tímanum víðsýnni og færari í að taka ákvarðanir og bera ábyrgð á sjálfum sér. Starfsfólk í skólum verði hæfara til að taka þátt í umræðunni og dæmin sýna að þegar upp koma álitamál þá er leitað til samtakanna um ráðgjöf og leiðir til að finna lausnir. Þannig hefur samstarfið leitt til aukinnar þekkingar og vitundarvakningar meðal starfsfólks og nemenda grunnskóla um málefni er varða kynhneigð, kynvitund og kyneinkenni fólks.

Transkona fjallkona Hafnarfjarðar 2018

Hafnarfjörður hefur verið með fjallkonu í upphafi hátíðarhaldanna 17. júní ár hvert þar sem hún flytur ávarp. Val á fjallkonu í Hafnarfirði hefur einkennst að tíðarandanum hverju sinni. Á ári aldraðra var fulltrúi eldri borgara fjallkona, fulltrúi innflytjenda hefur verið fjallkona, íþróttakonur sem hafa skarað framúr verða oft fyrir valinu og árið 2017 var transkona fjallkona Hafnfirðinga. Með þessu telur sveitarfélagið sig vera þátttakandi hverju sinni í þeim málum sem efstu eru á baugi. Fjallkonan er einskonar tákn íslenska lýðveldisins og því er vel við hæfi að fylgja ekki eingöngu staðalímyndum heldur vísa einnig í kærleik, réttindabaráttu og umburðarlyndi.

Við hvetjum Hafnfirðinga og vini Hafnarfjarðar til að taka þátt í fjölbreyttum hátíðarhöldum Hinsegin daga dagana 8. - 17. ágúst. Dagskrána má finna HÉR


Njótum öll Hinsegin daga og málum bæ og borg í öllum regnbogans litum!