Fréttir
  • IMG_4202

Hinsegin fræðsla er hafin

18. ágú. 2016

Starfsmenn grunnskóla í Hafnarfirði tóku fagnandi á móti fræðslufulltrúa frá Samtökunum ´78 á upphafsdegi hinsegin fræðslu innan skólanna. Í lok síðasta árs undirrituðu Hafnarfjarðarbær og Samtökin ´78 samstarfssamning um fræðslu á málefnum hinsegin fólks á grunni jafnréttis og sjálfsagðra mannréttinda. Vonir standa til þess að fræðslan leiði til aukinnar þekkingar og vitundarvakningar meðal starfsfólks og nemenda grunnskóla um málefni sem varða kynhneigð, kynvitund og kyneinkenni fólks.

Nýtt skólaár hefst með hinsegin fræðslu

Hinsegin fræðsla hófst á skipulagsdögum í grunnskólum Hafnarfjarðar í vikunni og mun fræðsla til kennara dreifast jafnt yfir skólaárið 2016-2017. Fræðsluþáttur til starfsfólks skiptist í þrjá hluta, fræðslu um kynhneigð, kynvitund og kyneinkenni. Áhersla er lögð á að fræðslan auki þekkingu kennara, styðji þá í menntunarhlutverki sínu og því að takast á við margvíslegar aðstæður í skólastarfi sem snúa að fordómum gegn hinsegin fólki. Stefnt er að því að árlega fái nýtt starfsfólk grunnskóla umrædda fræðslu. Þá munu samtökin vera til ráðgjafar fyrir bæjaryfirvöld varðandi námskrárgerð sem tengist málefnum hinsegin fólks og þætti þeirra innan námssviðs samfélagsgreina í grunnskólunum. Fræðari námskeiða á vegum Samtakanna ´78 er Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir. Bein fræðsla til nemenda nær svo til 8. bekkja grunnskóla Hafnarfjarðar og mun fræðslan ná til allra nemenda í árgangnum á þessu skólaári. Fræðslan mun síðan halda áfram milli ára meðal þessa árgangs. „Ég fagna því mjög að fræðslan sé farin af stað og þar með stigið enn eitt skrefið í átt að auknum fjölbreytileika og fjölmenningu innan skólakerfisins í Hafnarfirði. Þegar uppi er staðið þá er það einstaklingurinn sjálfur sem skiptir öllu máli og nauðsynlegt að aðstoða hvern og einn við að átta sig á lífinu og tilverunni, áhuga sínum og áformum og það út frá eigin forsendum og styrkleikum“ segir Fanney D. Halldórsdóttir, fræðslustjóri Hafnarfjarðarbæjar.

Jafnframt hefur Hafnarfjarðarbær samið við samtökin að veita hafnfirskum ungmennum, sem þess óska, ókeypis ráðgjöf og stuðning í því að skilja eigin kynhneigð, kynvitund og kyneinkenni. Fræðsluhópur innan Samtakanna 78 sér um fræðslu til nemenda sem miðar að því að efla skilning hafnfirskra ungmenna á málefnum hinsegins fólks og styðja enn frekar við grunnskólanemendur sem eru að reyna að skilja sjálft sig á mikilvægum mótunarárum.

Sjá eldri frétt frá undirritun samstarfssamnings við Samtökin ´78