Fréttir
Heimurinn án okkar

24. ágú. 2015

Haustsýning Hafnarborgar 2015 er sýningin  Heimurinn án okkar. Á sýningunni eru verk eftir myndlistarmennina  Björgu Þorsteinsdóttur, Brynhildi Þorgeirsdóttur, Finn Jónsson, Gerði Helgadóttur, Mörtu Maríu Jónsdóttur, Ragnar Má Nikulásson, Steinu og Vilhjálm Þorberg Bergssonsem öll eiga sér ólíkan bakgrunn í íslensku myndlistarlífi.

Á sýningunni er teflt saman verkum íslenskra listamanna af ólíkum kynslóðum sem vinna með hugmyndir um alheiminn í verkunum á sýningunni. Í þeim er varpað ljósi á ákveðna þætti alheimsins hvort sem um er að ræða nærumhverfi eða víðara samhengi, micro eða macro.

Á sýningartímabilinu verður boðið upp á leiðsagnir með þátttöku listamannanna, þá fyrstu sunnudaginn 30. ágúst kl. 15. Þá mun Steina ræða við gesti um list sína og fjölbreyttan feril en hún er frumkvöðull á sviði raf- og videolistar á heimsvísu. Jafnframt verður efnt til málþings fimmtudaginn 24. september kl. 20.

Sýningarstjórar eru  Aðalheiður Valgeirsdóttir myndlistamaður og listfræðingur og  Aldís Arnardóttir listfræðingur en hugmynd þeirra að sýningunni var valin úr innsendum tillögum síðastliðið haust þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu í safninu 2015.

Sjá nánar um sýninguna  hér (Opnast í nýjum vafraglugga) .

Heimurinn án okkar er fimmta sýningin í haustsýningaröð Hafnarborgar þar sem hugmynd sýningarstjóra er valin úr innsendum tillögum. Áður hafa verið settar upp, sem hluti af sama verkefni, sýningar Ólafar Gerðar Sigfúsdóttur mannfræðings,  Í bili, haustið 2011, sýning Guðna Tómassonar listsagnfræðings,  SKIA, haustið 2012, sýning Önnu Maríu Bogadóttur arkitekts,  Vísar-húsin í húsinu, haustið 2013 og sýning Helgu Þórsdóttur,  Rás, haustið 2014. Með haustsýningaröðinni vill Hafnarborg skapa farveg fyrir áhugaverðar hugmyndir og vera vettvangur þar sem myndlist fær notið sín mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum. Hafnarborg kallar nú eftir tillögum að haustsýningu árið 2016. Frekari upplýsingar um má nálgast á heimasíðu Hafnarborgar:  www.hafnarborg.i (Opnast í nýjum vafraglugga)