Fréttir
  • VoxturOgVellidan

Heilsan í fyrsta sæti!

9. jan. 2019

Heilsubærinn Hafnarfjörður siglir vel af stað inn í nýja árið og mun í ár, líkt og í fyrra, bjóða upp á fjölbreytta viðburði, heilsubótargöngur, jafningjafræðslu og aðra þjónustu sem miðar að því að efla og styrkja íbúa og starfsmenn á öllum aldri í vegferð sinni að líkamlegu og andlegu heilbrigði. Þessa dagana eru að berast inn á öll heimili í Hafnarfirði bæklingar um ókeypis heilsufarsmælingar fyrir alla íbúa og starfsmenn sem haldnar verða nú í janúar auk næringarsegla á ísskápa með hvatningu um neyslu á fjölbreyttri fæðu í hæfilegu magni.

Vöxtur og vellíðan

Hafnarfjarðarbær byrjar nýtt á því að bjóða Hafnfirðingum og öðrum gestum á vaxtar- og vellíðunarkvöld í hjarta Hafnarfjarðar í kvöld, miðvikudaginn 9. janúar í Bæjarbíói.  Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir! Kvöldstundin felur í sér fræðslu, innsýn og hvatningu tengda auknum vexti og vellíðan í eigin lífi og lífi fjölskyldunnar. Þátttakendur fara heim með efni, dæmi um aðferðir og hvetjandi reynslusögur. Sjá upplýsingar um viðburð á heimasíðu eða Facebook

Ókeypis heilsufarsmælingar í upphafi árs

SÍBS ásamt Samtökum sykursjúkra, Hjartaheill og Samtökum lungnasjúklinga bjóða Hafnfirðingum ókeypis heilsufarsmælingu í samstarfi við Heilsubæinn Hafnarfjörð og heilsugæsluna. Fagfólk frá heilsugæslunni verður á staðnum og veitir ráðgjöf og eftirfylgd. Mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun og fleira, auk þess sem þátttakendum er boðið að taka þátt í könnun um lífsstíl og heilsufar sem snertir á flestum áhrifaþáttum heilbrigðs lífs. Skoða má niðurstöðurnar ásamt nafnlausum samanburði á lokuðu vefsvæði með innskráningu gegnum island.is.  Mælingarnar fara fram laugardaginn 12. Janúar frá kl. 11-16 í Verslunarmiðstöðinni Firði 1.hæð (þar sem Arion banki var) og laugardaginn 19. janúar í Hraunseli, Flatahrauni 3.  Laugardagurinn 12. janúar frá kl. 11-16 í Firði  - sjá upplýsingar um mælingu á heimasíðu eða Facebook. Laugardagurinn 19. janúar frá kl. 11-16 í Hraunseli Flatahrauni 3 - sjá upplýsingar um mælingu á heimasíðu eða Facebook

Hugrún – geðfræðsla

Hafnarfjarðarbær hefur samið við Hugrúnu – geðfræðslufélag um jafningjafræðslu í grunnskólum Hafnarfjarðar á vorönn 2019.  Munu fræðarar á vegum félagsins heimsækja nemendur í 9. bekk og spjalla við þá á jafningjagrundvelli um m.a. kvíða, þunglyndi, átraskanir, fíknisjúkdóma og þá erfiðu atburði sem upp geta komið í lífi hvers og eins einstaklings. Svo sem það að missa ástvin, sambandsslit, slys, sjúkdómsgreiningar og fleira. Samhliða er rætt um birtingarmyndir og áhrif þessara þátta á m.a. líðan auk þess sem spjallað er um viðbrögð og mögulegar aðferðir og leiðir til betrunar. Hugrún er félag stofnað af hópi háskólanema í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði sem hefur það að markmiði að auka þekkingu ungs fólks á geðheilsu og geðheilbrigði.

Fræðsla um heilbrigðan lífsstíl

Jóns Ragnar Jónsson tónlistarmaður mun halda áfram heimsókn sinni til nemenda í áttundu bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar. Fræðsla hans um heilbrigðan lífsstíl hefur hitt beint í mark og nú dregur hann rafretturnar enn betur inn í umræðuna. Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar hefur síðustu ár unnið að forvörnum gegn tóbaksneyslu barna og ungmenna og nú hefur félagið gengið inn í Krabbameinsfélag Reykjavíkur og til varð Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins. Áhersla hefur verið á munntóbaksforvarnir en nú mun rík áhersla verða lögð á umræðu um rafrettur. Greinilegur mælanlegur árangur hefur verið af þessu starfi. Jón Ragnar er í grunninn venjulegur hafnfirskur ungur maður og afar góð fyrirmynd fyrir hafnfirsk ungmenni sem nær vel til þeirra. Unglingar í 8. bekk lifa almennt mjög heilbrigðu lífi sbr. rannsóknir frá Rannsóknum og greiningu og því er talið að jákvæðar og uppbyggilegar forvarnir eins og heimsókn Jóns styrki þau í því að velja áfram heilbrigðan lífstíl.

Heilsubærinn Hafnarfjörður - heilsueflandi samfélag. Heilsustefna

Öll þessi verkefni og fleiri til eru liður í heilsueflingu Hafnfirðinga og tala í takt við þá heilsustefnu sem sveitarfélagið mótaði 2016. Í heilsustefnunni er eitt aðalmarkmiðið að hlúa að almennri vellíðan íbúa, andlegri og líkamlegri, á öllum aldri og styrkja og efla sjálfsmynd og góða líðan. Heilsustefnan styður við þá sýn Hafnarfjarðarbæjar til framtíðar að auka vellíðan íbúa bæjarins með fyrirbyggjandi aðgerðum.

Heilsustefnu Hafnarfjarðar er að finna HÉR