Fréttir
Hvað finnst þér ?

18. mar. 2015

Starfshópur  um endurskoðun frístundaheimila, frístundastyrkja og fyrirkomulags niðurgreiðslna og gjalda hefur ásamt starfsmönnum tómstundaskrifstofu unnið að samþykkt um starfsemi frístundaheimila. Sú samþykkt tengist  fjölmörgum aðilum í Hafnarfirði og því er það mikilvægt að fá umsögn frá sem flestum aðilum.

Í dag er engin slík samþykkt til. Frítími barna og fullorðinna er dýrmætur og í vaxandi mæli er það krafa foreldra að vinnutími barna verði samfelldari og ennfremur að gæði  frístundastarfs á vegum sveitarfélagsins taki mið af þörfum fjölskyldunnar fyrir samveru að vinnudegi loknum.

Frístundaheimili er ekki lögboðin þjónusta sveitarfélagsins en hefur fest sig í sessi sem mikilvægur liður í uppeldi og reynslunámi barna. Nú verður unnið að því að auka við framboð á áhugaverðum verkefnum fyrir nemendur í frístundaheimilum úr 3. og 4. bekk en afar fá börn úr þessum aldurshópi hefur tekið þátt í starfinu. Einnig verður sérstök áhersla lögð á að styðja við læsisátak í Hafnarfirði. Frístundaheimili munu taka þátt í því og sköpuð verður aðstaða fyrir nemendur til að lesa og stunda heimanám.

Bæjarbúum gefst nú  tækifæri á að skoða drögin og koma með athugasemdir.

Umsögnum skal skilað ekki seinna enn 13. apríl á netfangið geir@hafnarfjordur.is en einnig má senda frekari fyrirspurnir um verkefnið ef frekari upplýsinga er þörf.