Fréttir
  • Jolahugvekja2018

Hátíðarkveðja bæjarstjóra

23. des. 2018

Nú er jólahátíðin að ganga í garð, hin ljúfa hátíð ljóss og friðar. Fyrir okkur flest eru jólin full af tilhlökkun, von og kærleika. Jólin sameina fjölskyldur og vini og því fylgir eftirvænting að fá að njóta kyrrðardaga með þeim sem okkur þykir vænst um.  Þó að margir séu á þönum í aðdraganda hátíðarinnar þá eru það sjálf jólin sem færa okkur hina einu sönnu gleði. Það er mikilvægt að halda í hana, staldra við, njóta og gefa af okkur. 

Ekki eru allir sem geta haldið eins gleðileg jól og þeir myndu gjarnan vilja. Sumir hafa misst ástvini, sem þeir sakna sárt yfir hátíðarnar eins og aðra daga. Aðrir glíma við sjúkdóma og heilsuleysi eða eru einmana. Hugsum til þeirra sem eiga erfitt og reynum eftir fremsta megni að létta þeim lífið, þannig að þeir njóti ljóss jólanna. 

 Sem betur fer eru þó jólin fyrir flesta yndislegur tími. Tilhlökkun barnanna beinist oft að gjöfum og tilstandi en við sem eldri erum vitum að jólin snúast öðru fremur um að gleyma erli og striti og finna innri frið og ró í samneyti við fjölskyldu og vini. Minningarnar um ljúfa samveru á jólum eru þær sem standa upp úr, veita gleði um ókomin ár og varðveitast í hjörtum okkar. Þær eru ljós hátíðarinnar; jólagjöfin sem fylgir okkur ævina til enda. 

Ég vil þakka starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar fyrir ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða og sendi Hafnfirðingum öllum hugheilar óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári.

Rósa Guðbjartsdóttir
bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar

Ljósmynd:  Sólin, prammarnir, lognið, fuglarnir, frostið og steinarnir. Ljósmyndari: Olga Björt Þórðardóttir