Fréttir
  • Menntasetrid2

Háskóli Íslands í Menntasetrið við Lækinn

16. ágú. 2018

Hafnarfjarðarbær og Háskóli Íslands hafa komist að samkomulagi um að skólinn komi upp aðstöðu fyrir tæknifræðinám í Menntasetrinu við Lækinn nú í haust. Bæjarráð samþykkti samninginn á fundi sínum í morgun. Tæknifræðikennslan mun hefjast af fullum þunga núna í haust hér í Hafnarfirði en námið hafði áður verið í samstarfi við Keili í Ásbrú á Reykjanesi.

Hjá Keili hefur nám tengt flugi og ferðaþjónustu vaxið á undanförnum árum og á sama tíma einnig kennsla í tæknifræði. Háskóli Íslands sá tækifæri í því að flytja tæknifræðikennsluna og helst nær höfuðborginni. Nemendurnir koma bæði frá höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjunum og því þótti Hafnarfjörður ákjósanleg staðsetning. Eftir að erindi frá Háskólanum um mögulegt húsnæði í Menntasetrinu við Lækinn barst í sumar, fól bæjarráð bæjarstjóra að ganga til viðræðna við forsvarsmenn Háskólans hið fyrsta.

,,Þetta er mjög spennandi þróun í námsframboði í Hafnarfirði. Við erum nú þegar með Tækniskólann hér í bænum og fögnum því mjög að fá tæknifræðinám Háskóla Íslands líka. Aukið framboð til náms og ný menntastofnun af þessu tagi mun án efa hafa jákvæð áhrif á mannlíf í Hafnarfirði, auðvelda hafnfirskum nemendum að hefja tæknifræðinám og svo er ánægjulegt að gamli Lækjarskóli haldi áfram að gegna sínu hlutverki sem menntasetur,“ segir  Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri um komu Háskólans til Hafnarfjarðar. 

Kennslan fer fram á þriðju hæð Menntasetursins og eins og áður sagði hefst hún strax á þessu skólaári. Öll kennslan nema efnafræði mun fara þar fram strax í upphafi en stefnt er að því að koma upp aðstöðu fyrir slíka kennslu í framhaldinu þannig að allt nám tæknifræðinnar verði kennt í Hafnarfirði. Um það bil 50 nemendur hefja nám í haust en með aðstöðunni í Menntasetrinu við Lækinn verður hægt að efla námið og fjölga nemendum.