Fréttir
Hamarinn - ný aðstaða í Öldutúnsskóla

16. okt. 2015

Dagurinn í dag markaði tímamót hvað varðar aðstöðu fyrir unglinga í Öldutúnsskóla. Þá var formlega tekið í notkun nýtt rými sem nemendur geta nýtt í frímínútum, hópastarfi í kennslustundum og í félagsmiðstöðinni Öldunni. Í rýminu, þar sem gamla tölvustofan var, eru sófar, hópvinnuborð, tölvur, skjávarpi, tímarit og fleira. Undanfarnar vikur hafa nemendur og starfsmenn tekið höndum saman og málað rýmið, sett inn húsgögn, saumað púða og skreytt veggina. Við þökkum þeim kærlega fyrir þeirra vinnu.

Haldin var nafnasamkeppni meðal nemenda um rýmið og fjölmargar tillögur bárust. Dómnefnd ákvað að tillaga Sæunnar Björnsdóttur nemanda í 9.L., Hamarinn, yrði notuð.

Við óskum nemendum til hamingju með þetta rými sem kemur til með að gera góðan skólabrag enn betri.