Fréttir
  • Norðurbakki um vetur

Hafnfirðingar duglegir að hreyfa sig í samkomubanni

27. mar. 2020

Samkvæmt teljara á Strandstígnum við Fjarðargötu eru Hafnfirðingar duglegir að hreyfa sig í samkomubanninu en gangandi vegfarendur á Strandstígnum í mars voru tvöfalt fleiri en á sama tíma á síðasta ári.

Teljararnir telja fjölda þeirra sem ganga eða hjóla um stíginn ásamt því að mæla hraða þeirra sem hjóla. Íbúar geta fylgst með umferðinni í bæjarvefsjánni Granna.

Regluleg hreyfing skiptir okkur miklu máli og sérstaklega á þessum óvenjulegu tímum. Íbúar sem eiga þess kost eru hvattir til þess að hreyfa sig þessa dagana t.d. með því að skella sér í göngu eða hjólreiðatúr um bæinn. Fjöldi göngu- og hjólastíga liggja um heilsubæinn Hafnarfjörð, áhugaverðir staðir sem tilvalið er að heimsækja leynast víða og í nærumhverfinu eru fjölmargir opnir leik- og sparkvellir.

Gönguteljari sem mælir fjölda ferða hjólandi og gangandi með því markmiði að fylgjast með umferð vegfaranda var settur upp á Strandstígnum í ágúst 2018. Umhverfis- og framkvæmdaráð hefur einnig sett upp teljara við helstu ferðamannastaði í landi Hafnarfjarðar og stefnt er að því að setja upp teljara við fleiri staði.

Hafnarfjarðarbær er þátttakandi í samstarfi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar um teljara fyrir hjóla- og göngustígakerfi höfuðborgarsvæðisins. Settir hafa verið upp teljarar sem mæla fjölda ferða hjólandi og gangandi á völdum stöðum og áætlað er að setja upp fleiri víðar um höfuðborgarsvæðið og safna gögnum, m.a. um vaxandi samgönguhjólreiðar.