Fréttir
  • Ráðhús Hafnarfjarðar og bæjarbíó

Mansali veitt sérstök athygli

25. maí 2016

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða á fundi sínum þann 25. maí að Hafnarfjarðarbær skuli veita hættunni á mansali sérstaka athygli. Í tillögunni segir að farið verði yfir alla ferla hjá bænum með það að markmiði að vernda þá sem eru í viðkvæmri stöðu gagnvart mansali.

Allir innkaupaferlar og útboðsskilmálar verða yfirfarnir með tilliti til þessa. Þá mun Hafnarfjarðarbær tryggja að starfsfólk og eftirlitsaðilar á vegum bæjarins fái fræðslu um hvernig bera megi kennsl á mansal. Sú fræðsla hefur þegar farið fram tvisvar sinnum. Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðallögfræðingur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var með fræðslu fyrir stóran hóp af starfsfólki á dögunum og hún og Snorri Birgisson rannsóknarlögreglumaður voru með kynningu fyrir bæjarstjórn fyrir bæjarstjórnarfundinn.

Samþykkt bæjarstjórnar er eftirfarandi:

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að bæjarfélagið skuli veita hættunni á mansali sérstaka athygli. Farið verður yfir alla ferla hjá bænum með það að markmiði að vernda þá sem eru í viðkvæmri stöðu gagnvart mansali. Allir innkaupaferlar og útboðsskilmálar verða yfirfarnir með tilliti til þess. Þá mun Hafnarfjarðarbær tryggja að starfsfólk og eftirlitsaðilar á vegum bæjarins fái fræðslu um hvernig bera megi kennsl á mansal.