Fréttir
  • Hfj-19-07-09-16939

Hafnarfjarðarbær tekur við rekstri Hamravalla

11. jún. 2020

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti á fundi sínum í gær ákvörðun fræðsluráðs að taka yfir rekstur leikskólans Hamravalla og tryggja þannig áframhaldandi starfsemi og óbreyttar áherslur. Hamravellir, sem staðsettur er að Hvannavöllum 1, tók til starfa í júní 2008 og hafa Skólar ehf. séð um reksturinn frá upphafi.

Heilsuleikskólinn Hamravellir mun frá og með næsta skólaári, 2020-2021, bætist við í leikskólaflóru Hafnarfjarðarbæjar og þannig verða 17 leikskólinn sem rekinn er af sveitarfélaginu. Skólar ehf. sem séð hafa um rekstur leikskólans síðustu tólf árin afhentu á dögunum uppsögn á þjónustusamningi og er ástæðan breyttar rekstrarforsendur, færri börn og vilji til þess að leggja áherslu á uppbyggingu á starfi í öðrum þeim skólum sem Skólar ehf. sjá um reksturinn á.

Áhersla lögð á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik

Í leikskólastarfinu á Hamravöllum er heilsuefling höfð að leiðarljósi í einu og öllu og rík áhersla lögð á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik. Leikskólinn er, líkt og stækkandi hópur leikskóla í Hafnarfirði, heilsueflandi leikskóli og virkur þátttakandi í samvinnuverkefni Embættis landlæknis um heilsueflandi skóla. Hafnarfjarðarbær gekk til samninga við Embætti landlæknis í mars 2015 um þátttöku í verkefninu Heilsueflandi samfélag og hefur sveitarfélagið í samstarfi við íbúa, starfsmenn og aðra hagsmunaaðila mótað heilsustefnu Hafnarfjarðarbæjar og vinnur samkvæmt metnaðarfullri aðgerðaáætlun ár hvert. Sveitarfélagið tekur fagnandi á móti nýjum leikskóla með skapandi skólastarf sem fellur vel að heilsueflandi hugmyndafræði Hafnarfjarðarbæjar.

Þakkir til Skóla ehf. fyrir faglegt og flott samstarf

Fræðsluráð og bæjarstjórn Hafnarfjarðar, fyrir hönd alla þeirra sem notið hafa faglegrar þjónustu starfsfólks og stjórnenda Hamravalla, þakka Skólum ehf. fyrir gott samstarf og óskar fyrirtækinu velfarnaðar í áframhaldandi verkefnum.