Fréttir  • IMG_1299

Hafnarfjarðarbær styrkir Hugrúnu

28. feb. 2019

Heilsubærinn Hafnarfjörður afhenti í vikunni 300.000.- kr styrk til Geðfræðslufélagsins Hugrúnar.  Fræðarar á vegum Hugrúnar heimsóttu nú í janúar alla nemendur í 9. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar með það fyrir augum að fræða unga fólkið okkar um geðheilbrigði, geðsjúkdóma og úrræði, sem og að auka samfélagslega vitund um þessi mikilvægu mál. 

Fræðsla um geðheilbrigði, geðsjúkdóma og úrræði sem standa til boða

IMG_1296Hér má sjá fræðara á vegum Hugrúnar taka á móti styrk frá Fanneyju D. Halldórsdóttur sviðsstjóra fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðarbæjar og Geir Bjarnasyni, íþrótta- og tómstundafulltrúa.

Geðfræðslufélagið Hugrún var stofnað vorið 2016 af nemendum í sálfræði, læknisfræði og hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Til þessa hefur áhersla félagsins legið í fræðslu til framhaldsskólanema auk opinna fræðslukvölda og kynninga til hvorutveggja almennings og foreldra. Í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ tók geðfræðslufélagið nýtt skref og færði fræðslu sína til grunnskólanema sem oftar en ekki eru móttækilegri og opnari fyrir fræðslunni og því að ræða um geðheilbrigði opinskátt. 

Hafnarfjarðarbær tekur forvarnarhlutverk sitt alvarlega og hefur um nokkurt skeið farið þá leið að bjóða upp á jafningjafræðslu innan grunnskóla Hafnarfjarðar. Hefur þessi leið mælst vel fyrir hjá nemendum, foreldrum þeirra og starfsmönnum skólanna. Umræðan verður oft á tíðum opnari og öðruvísi og þykir því góð viðbót við þá fræðslu og hvatningu sem á sér stað með öðrum hætti.

Hugrun

Hér má sjá Kristínu Fjólu Reynisdóttur, eina af hópi fræðara hjá Hugrúnu, sem spjölluðu við nemendur í 9. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar.