Fréttir
  • IMG_2774

Hafnarfjarðarbær fær grænar greinar Orkusölunnar

29. jún. 2020

Orkusalan kom færandi hendi á dögunum og afhenti Hafnarfjarðarbæ grænar greinar Orkusölunnar en verkefnið er fyrst og fremst hugsað til skemmtunar og vitundarvakningar. Grænu greinarnar koma frá gróðrarstöðinni Kjarr og er um að ræða 40 birkitré sem sveitarfélagið mun sjá um að gróðursetja á góðum stað. Væntanlegir íbúar á nýjum búsetukjarna í Hafnarfirði tóku á móti trjánum sem gróðursett verða á lóð kjarnans þegar framkvæmdum við uppbyggingu og frágang lýkur.

IMG_2774Hluti íbúa nýs búsetukjarna að Öldugötu 45 tekur hér á móti grænum greinum Orkusölunnar. Hér með bæjarstjóra, sviðsstjóra, forstöðumanni og starfsfólki búsetukjarna og fulltrúum Orkusölunnar. 

Orkuráðgjafar Orkusölunnar eru á ferðinni um landið og afhenda öllum sveitarfélögum landsins greinar til gróðursetningar og mun fyrirtækið gróðursetja til jafns við sveitarfélögin. Ákveðið hefur verið að gróðursetja birkitrén við nýjan búsetukjarna fyrir fatlað fólk að Öldugötu 45 í Hafnarfirði. Fyrsta skóflustungan að kjarnanum var tekin í lok september 2019 og er gert ráð fyrir að íbúðirnar afhendist fullbúnar vorið 2021. Um er að ræða búsetukjarna með sex sérbýlum sem hönnuð eru samkvæmt hugmyndafræði algildrar hönnunar þar sem jafnrétti og vellíðan alls fólks er haft að leiðarljósi við hönnun lausna. Birkitrén verða gróðursett við húsið um leið og framkvæmdum við uppbyggingu og frágangi við lóð lýkur.

Hafnarfjarðarbær þakkar Orkusölunni fyrir grænu greinarnar.

Sjá tilkynningu frá fyrstu skóflustungunni: Framkvæmdir hefjast við nýjan búsetukjarna