Fréttir
  • IMG_3581

HAFNARFJARÐARBÆR BÆTIR KJÖR OG STARFSUMHVERFI Í LEIKSKÓLUM

2. jan. 2018

Í nýsamþykktri fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2018 er lögð áhersla á að bæta starfsaðstæður í leikskólum og minnka álag á börn og starfsfólk. Undirbúnings- og yfirvinnustundum starfsmanna verður fjölgað á leikskólum og fá leikskólastjórar þannig aukið svigrúm til að koma til móts við þau fjölmörgu verkefni sem leikskólinn stendur frammi fyrir. Stigin verða fyrstu skrefin í því að auka rými barna á leikskólunum og er Hafnarfjarðarbær að sýna frumkvæði í þeim efnum. Ný rýmisáætlun verður tekin upp með það að leiðarljósi að færri börn verði í barnahópum inni á leikskólunum og er þannig markvisst unnið að því að bæta starfsumhverfið fyrir kennara jafnt sem börn. Starfshópur er nú farinn af stað sem gera á tillögur og leggja fram aðgerðaráætlun til fræðsluráðs um hvernig bæta megi frekar vinnuumhverfi barna og starfsmanna og minnka álag í leikskólum. 

 

 Aukin áhersla er lögð á að styðja við og auka faghlutfall í leikskólum. Undirbúningstími fagfólks verður áfram sá sami og samið var um á síðastliðnu fjárhagsári en þá var undirbúningstími aukinn um eina klukkustund hjá deildarstjórum og því fagfólki sem er innan Kennarasambands Íslands sömuleiðis. Nú verður bætt um betur í þennan þátt og fá allir leiðbeinendur eina klukkustund í undirbúning á viku. Fjármagn í vettvangsferðir verður aukið um 3 milljónir króna og til námsgagnakaupa um 2,5 milljónir króna.

 

Á sama tíma verða  leikskólagjöld óbreytt á milli ára. Er þetta fimmta árið í röð sem dvalargjöld á leikskólum bæjarins hafa ekki hækkað, eða frá árinu 2014. Áfram verður stutt við starfsmenn leikskóla í réttindanámi til B.Ed.-prófs í leikskólakennarafræðum með afleysingu þegar starfsfólk sækir nám á vinnutíma. Þessa aðgerðir og fleiri koma til.