Fréttir
  • Menntastefna

Gerð menntastefnu Hafnarfjarðar 2020-2030

16. sep. 2019

Á undanförnum mánuðum hefur farið fram vinna í starfshópi við vinnulag við gerð menntastefnu Hafnarfjarðar og samþykkt í fræðsluráði að hefja vinnu við gerð sjálfrar menntastefnunnar nú á haustdögum. Menntastefna Hafnarfjarðar á að hafa samhljóm með gildandi lögum og reglugerðum sem gilda um nám, kennslu, frístundastarf og alla almenna vellíðan og þroska barna og ungmenna í Hafnarfirði.

Enn frekari stefnumörkun í menntamálum

Mennta- og lýðheilsusvið Hafnarfjarðar leggur nú af stað með vinnu við frekari stefnumörkun í menntamálum í Hafnarfirði. Vinnulag við gerð stefnunnar miðast við samvinnu allra hagsmunaaðila með áherslu á samræðu, endurgjöf og samstöðu um leiðir. Markmið stefnumótunarinnar er að styðja frekar við nám nemenda, þroska og ekki síst vellíðan sem forsenda náms. Menntastefnan skal ýta undir mikilvægar breytingar og merkingarbærar nýjungar sem hluti jákvæðrar skólaþróunar. Auk þess að leggja fram tillögur til bættra starfsaðstæðna í skólum þ.e. starfsumhverfi nemenda og starfsmanna.

Menntastefna unnin í anda lærdómssamfélags

Menntastefnan á að endurspegla væntingar nemenda, starfsfólks og íbúa til náms, vellíðunar og í því að efla einstaklinginn til að uppfylla þarfir sínar til að vaxa og dafna í samfélaginu. Menntastefna Hafnarfjarðar skal unnin í anda lærdómssamfélags þar sem byggt verður á forgangsröðun með áherslu á alhliða þroska, velferð og hæfniþætti sem leggja grunn að menntun í víðum skilningi. Lykillinn að farsælli menntastefnu er mikið og gott samtal og samvinna við alla þá hagsmunahópa sem menntastefna heyrir til.

Kynningarfundur fyrir aðila skólasamfélagsins og aðra hagsmunaaðila

Haldnir verða samráðsfundir, rýnihópafundir og kynningarfundir með nemendum, starfsfólki, foreldrum og hagsmunaaðilum þar sem óskað er eftir aðkomu allra á einn eða annan hátt á meðan á ferlinu stendur.
Þann 24. september verður aðilum skólasamfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum boðið á kynningarfund þar sem verkefnið verður kynnt og útlistað frekar. Annar fundurinn verður kl. 15:00-15:45 í Víðistaðaskóla (starfsstöð við Hrauntungu) og hinn kl. 17:15 - 18:00 í Hraunvallaskóla. Um er að ræða sama efni á báðum fundum.