Fréttir
  • 13235246_10209353496903412_3129381477849666816_o

Garðúrgangur sóttur heim

30. apr. 2019

Garðúrgangur verður sóttur heim til íbúa nú í maí.  Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar verða á ferð um bæinn dagana 6. - 20. maí. Þannig verður garðúrgangur í Norðurbæ, Vesturbæ, Hraunum og miðbæ sóttur heim 6. maí, í Setbergi, Kinnum og Hvömmum 13. maí og í Áslandi, á Völlum og Holti 20. maí.

Íbúar í Hafnarfirði eru beðnir um að setja garðúrgang út fyrir lóðarmörk í lok settra hreinsunardaga í hverju hverfi fyrir sig. Athugið að allur garðúrgangur þarf að vera í pokum og höfum hugfast að hæfilega þungir pokar auðvelda starfsmönnum hreinsunarstörfin. Bæjarbúar eru hvattir til að nýta sér þessa þjónustu bæjarins.

Að vorhreinsun lokinni verða eigendur og lóðarhafar sjálfir að fara með garðúrgang til Sorpu – upplýsingar um afgreiðslutíma er að finna á heimasíðu Sorpu: www.sorpa.is Tilvalið er einnig að safna garðúrgangi yfir sumartímann saman í safnhaug á góðum stað í garðinum og nýta til moltugerðar.

Sjá kort með hverfaskiptingu og settum degi HÉR

Hreinsunardagar standa enn yfir!

Dagana 11. apríl - 20. maí standa yfir hreinsunardagar í Hafnarfirði undir yfirskriftinni HREINSUM HAFNARFJÖRÐ . Íbúar í öllum hverfum Hafnarfjarðar eru hvattir til að taka virkan þátt í hreinsuninni og er tilvalið á meðan á hreinsunardagar standa yfir að taka til hendinni í garðinum, snyrta runna og beð. Vakin er sérstök athygli á því að lóðarhöfum er skylt að halda vexti trjáa og runna á lóðinni innan lóðarmarka. Trjágróðurinn getur skapað óþægindi og jafnvel hættu fyrir gangandi og akandi vegfarendur. Eins er lóðareigendum bent á að ákveðnar reglur gilda um byggingu á skjólvegg og grindverki innan lóðar sem vert er að kynna sér áður en farið er af stað.

Hreinsum Hafnarfjörð! Flokkum og plokkum!