Fréttir  • IMG_6550

Fyrsta skóflustunga að nýjum höfuðstöðvum Icelandair

14. sep. 2022

Fyrsta skóflustunga að nýjum höfuðstöðvum Icelandair í Hafnarfirði

Starfsfólk Icelandair tók fyrstu skóflustungu að nýjum höfuðstöðvum félagsins í Hafnarfirði í gær. Húsnæðið verður nútímalegt og sveigjanlegt og þar mun starfsemi félagsins á höfuðborgarsvæðinu, önnur en flugvallarstarfsemi, sameinast á einn stað. Þessi 5.200 fermetra bygging mun tengjast núverandi húsnæði félagsins sem hýsir þjálfunarsetur og tæknideild. Skóflan sem notuð var er hönnuð og smíðuð af starfsmönnum í viðhaldsskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli og er hún meðal annars búin til úr notuðu hreyfilblaði úr einni af Boeing 757 flugvélum félagsins. Nú hefjast framkvæmdir af fullum krafti og stefnt er að því að taka nýja húsnæðið í notkun undir lok árs 2024. 

IcelandairNytthusnaedi

Í nýjum höfuðstöðvum verður mikil áhersla lögð á góða vinnuvist og fjölbreytt vinnurými, þannig að hægt verði að velja vinnuaðstöðu eftir verkefnum hverju sinni. Byggingin mun einkennast af sterkum kjarna sem styður við öflugt samstarf, nýsköpun og eflir tengsl. Haldin var samkeppni um hönnun nýrra höfuðstöðva á síðasta ári og bárust átján tillögur frá innlendum og erlendum arkitektastofum. Að endingu var tillaga Nordic Office of Architecture valin. Nordic er alþjóðleg arkitektastofa með skrifstofu á Íslandi.

Sjálfbærni að leiðarljósi

Icelandair leggur mikla áherslu á sjálfbærni og verða nýjar höfuðstöðvar hannaðar, byggðar og reknar eftir BREEAM umhverfisvottunarkerfinu. BREEAM umhverfisvottuninni (British Research Establishment Environmental Assessment Method) er ætlað að greina og draga úr umhverfisáhrifum bygginga. BREEAM er eitt umfangsmesta og besta umhverfisvottunarkerfið sem boðið er upp á í dag.

IMG_6527

„Bygging nýrra höfuðstöðva í Hafnarfirði er spennandi áfangi í langri sögu Icelandair. Við höfum verið með skrifstofur í Vatnsmýrinni síðan á miðjum sjöunda áratugnum og á þeim tíma höfum við náð að byggja upp mjög öflugt fyrirtæki. Nú sameinum við tvær stórar starfsstöðvar í nútímalegt húsnæði sem uppfyllir þarfir okkar og styður við markmið okkar að vera besti vinnustaður á Íslandi. Þannig styðjum við framúrskarandi frammistöðu og vellíðan starfsfólks sem er grunnurinn að velgengni fyrirtækisins“ segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair.

Eldri tilkynningar