Fréttir  • Img_7827

Fyrsta Mílan í Skarðshlíðarskóla

20. sep. 2018

Nemendur og kennarar í Skarðshlíðarskóla fóru í dag fyrstu „míluna“ af mörgum frá skólanum. Um er að ræða verkefni að skoskri fyrirmynd sem heitir The Daily Mile og er skólinn fyrsti íslenski skólinn sem tekur þátt.  Skarðshlíðarskóli tók til starfa haustið 2017 í bráðabirgðahúsnæði en flutti nýverið í glæsilega nýbyggingu í Skarðshlíð í Hafnarfirði.

Um 5000 skólar víðsvegar um heiminn eru þátttakendur í verkefninu sem snýr að því að daglega fara allir nemendur skólans út og ganga, skokka eða hlaupa í 15 mínútur. Til að marka upphaf verkefnis í Skarðshlíðarskóla var farið um 800 metra að veglegum steini þar sem allir þátttakendur settu sitt fingrafar á steininn í litum skólans. Mílan er ekki keppni, heldur félagsskapur og gleði þar sem allir fara á sínum hraða og forsendum. Reynslan hefur sýnt að margir fara um eina mílu (1.6 km) á 15 mínútum og þess vegna heitir verkefnið The Daily Mile.  Skarðshlíðarskóli hefur ákveðið að nota nafnið „Mílan“ sem heiti á verkefnið hjá sér. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikinn ávinning fyrir alla með þessari einföldu aðferð. Má þar nefna betri líðan, aukið sjálfstraust, betri einbeiting, betri samskipti, minni streita og kvíði og aukin þrautseigja. Auk þess er þetta öflug leið til að bregðast við offitu og kyrrsetu. 

Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna HÉR