Fréttir
  • IMG_2318

Fulltrúar framtíðarinnar heimsækja bæjarstjóra

26. jún. 2020

Hefð hefur skapast fyrir því að útskriftarhópar leikskóla heimsæki bæjarstjóra með spurningar og vangaveltur um lífið og tilveruna. Þannig hafa hópar frá m.a. Arnarbergi og Hlíðarenda heimsótt bæjarstjóra, Rósu Guðbjartsdóttur, síðustu daga og vikur. Í þessum hópum leynast, að eigin sögn, löggur, tannlæknar, læknar, forsetar, vísindamenn, hjúkrunarfræðingar, kennarar, bæjarstjórar og ein sem á sér þann draum að verða drottning.

IMG_2318Útskriftarhópur frá Hlíðarenda á skrifstofu bæjarstjóra

IMG_2892

Útskriftarhópur frá Arnarberg við TAKK veginn í Hafnarfirði eftir heimsókn til bæjarstjóra

Ný og krefjandi verkefni á nýju skólastigi framundan

Þessar heimsóknir eru alltaf jafn skemmtilegar og börnin mjög áhugasöm um störf bæjarstjóra og verkefni hennar í vinnunni. Bæjarstjóri hefur samhliða fengið boð um heimsóknir til leikskólanna til að sjá sýningar og afrakstur vinnu útskriftarhópanna sem lið í útskriftinni og af þeim merka áfanga í lífinu að kveðja fyrsta skólastigið og takast á við ný og krefjandi verkefni á nýju skólastigi í haust. Hóparnir koma vel undirbúnir að fund bæjarstjóra með spurningar og mörg barnanna búin að kanna allar mögulegar tengingar við bæjarstjóra. Þannig eiga börnin afa og ömmur sem voru með bæjarstjóra í bekk og foreldra sem þekkja einhvern veginn til Rósu sem segir tölvuvert til um það hversu lítill og vinalegur bærinn okkar er þrátt fyrir að vera orðinn ansi stór. Allavega kom það börnunum mjög á óvart að íbúar væru um 30.000 talsins og starfsmenn um 2.000.

IMG_2760Bæjarstjóri heimsótti Fiskibæinn hjá útskriftarhópnum á leikskólanum Hlíðarenda. Bæ sem minnir um margt á Hafnarfjarðarbæ. 

Ferskar hugmyndir og pælingar frá flottum börnum

Börnin lýstu yfir ánægju sinni með nýjan ærslabelg og áhyggjum af því hversu oft belgurinn á Víðistaðatúni er loftlaus. Voru sammála um að við þyrftum öll að hugsa vel um belgina og fara eftir settum reglum eins og vera ekki í skóm að hoppa og alls ekki nota belgina fyrir reiðhjól eða hlaupahjól, hvað þá nokkuð annað. Umræða um umhverfismál hefur verið mikil og krakkarnir velt fyrir sér hreinsun bæjarins, plokkun og því að henda alls ekki rusli. Þau vilja öll meina að þau séu að standa sig vel á þessu sviði, beri virðingu fyrir umhverfinu og ætla sér að gera enn betur.