Fréttir
Fráveitan - breytingar á lögnum í Ósnum

29. maí 2015

Á síðasta áratug tóku Hafnfirðingar myndarlega á fráveitumálum bæjarins. Ráðist var í átaksverkefni sem að fólst í því að byggðar voru fjórar sérhannaðar dælu- og hreinsistöðvar meðfram strandlengjunni frá Herjólfsgötu allt suður í Hraunavík. Inn á þessar stöðvar voru tengdar flestar eldri skolplagnir í eldri hlutum bæjarins en ástand þeirra var og er býsna misjafnt.

Þessar dælustöðvar flytja svo allt skolp frá bænum í eina sameiginlega hreinsistöð í Hraunavík en þaðan liggur jafnframt aðalútrás fráveitunnar rúma 2 km út á flóann.

Samhliða þessum framkvæmdum var lagður göngu- og hjólastígur með allri ströndinni og er hann mikið notaður. Yst á fyllingunni vestur af suðurhöfninni (vestast á Óseyrarbraut) var gerð jöfnunarþró sem jafnframt var hugsuð sem tímabundið yfirfall þegar mest álag er á fráveitunni.

Úr þessu mannvirki sem nefnt hefur verið „Ósinn“ er svo sjálfrennandi flæði vestur í Hraunavík. Komið hefur í ljós að óþarflega mikið skolp rennur um yfirfallsútrásina úr „Ósnum“ og líka úr hinum stöðvunum svo sem „Óseyri“ við Óseyrarbraut og „Krosseyri“ við Vesturgötu, en til þess að koma endanlega í veg fyrir það og eiga möguleika á að dæla öllu skolpi suður í Hraunavík þarf að gera breytingar á tengingum lagna inni í „Ósnum.“

Á meðan að þær framkvæmdir eiga sér stað þarf að hleypa skolpinu út um neyðaryfirföll í dælustöðvunum Óseyri og Krosseyri en þessi árstími er valinn vegna þess að bakrásarvatn hitaveitu fer nú ört minnkandi og minnstar líkur eru á stórrigningum.

Gert er ráð fyrir að þessar framkvæmdir geti tekið tvær vikur og eru bæjarbúar beðnir að sýna verkinu umburðarlyndi og skilning en búast má við að staðbundin en tímaháð skolpmengun verði sýnileg í rennunni á milli Suðurhafnarsvæðisins og golfvallarins á Hvaleyrarholti en líka utan við Norðurbakka, utan við dælustöðina Krosseyri. Þetta ástand verður mest áberandi um lág fjöru.

Að þessu verki loknu mun skolprennsli um yfirföll nánast algerlega heyra sögunni til.

Með sumarkveðjum,

Starfsmenn Fráveitu Hafnarfjarðar