Fréttir
  • UnaManey

Fræðslufundir um málþroska vekja ánægju og athygli

3. des. 2018

Á haustdögum voru haldnir fræðslufundir fyrir foreldra barna á aldrinum 6-24 mánaða í Hafnarfirði sem höfðu þann mikilvæga tilgang að fræða foreldra ungra barna um málþroska og málörvun og tengsl málþroska og læsis. Verkefnið er hluti af læsisstefnu Hafnarfjarðar; Lestur er lífsins leikur og um að ræða samstarfsverkefni Hafnarfjarðarbæjar, Bókasafns Hafnarfjarðar og Heilsugæslunnar í Hafnarfirði. Alls voru haldnir 10 fræðslufundir, einn í hverju skólahverfi og tveir fundir sem voru túlkaðir, annar á ensku og hinn á pólsku.

Fræðandi og upplýsandi fundir fyrir alla hlutaðeigandi

Foreldrar og forráðamenn 457 barna fengu boð um að mæta á fræðslufund í sínu hverfi, en alls mættu 116 einstaklingar og var talsvert um áhugasöm foreldrapör. Í lok hvers fundar svöruðu þátttakendur stuttri könnun um fræðsluna. 77% svarenda töldu fræðsluna mjög gagnlega og 21% nokkuð gagnlega. Margir tjáðu ánægju sína með framtakið, töldu fundina fræðandi og upplýsandi og hvöttu aðstandendur til þess að hafa slíka fræðslufundi reglulega. „Við stefnum að áframhaldandi samstarfi um eflingu málþroska barna og vonir standa til þess að hægt verði að bjóða upp á svona fræðslufundi fyrir foreldra yngstu barnanna árlega. Foreldrar nefndu það sérstaklega sjálfir að það sé alls ekki sjálfgefið að foreldrar hafi þekkinguna og að mikilvægt sé að hjálpa t.a.m. nýbökuðum foreldrum á þennan sérhæfða máta við uppeldið þannig að börnin séu efld í málþroska frá unga aldri og gripið fyrr inn í ef þörf er á“ segir Bjartey Sigurðardóttir, talmeinafræðingur og verkefnastjóri Lestur er lífsins leikur. 75,3% þátttakenda á námskeiði segjast munu lesa oftar fyrir barnið sitt eftir námskeiðið, 77,6% huga betur samtali og samskiptum við sitt barn, 69,4% munu gæta betur að þeim tíma sem fer í snjalltækjanotkun og 68,2% þátttakenda segist ætla að fylgjast betur með málþroska sinna barna.  

Glærukynningu frá fræðslufundum er að finna HÉR

Niðurstöður úr könnun meðal foreldra er að finna HÉR  

Bæklingar um mikilvægi lesturs

Bæklingar um mikilvægi þess að lesa fyrir börn hafa nú litið dagsins ljós. Bæklingarnir, sem tengjast læsisstefnu Hafnarfjarðar, verða aðgengilegir víða t.d. í leikskólunum, heilsugæslustöðvunum, hjá dagforeldrum, á frístundaheimilunum og á Bókasafni Hafnarfjarðar. Bæklingurinn er til á íslensku, ensku og pólsku.