Fréttir
  • IMG_0212

Fjörug framtíðarsýn í Firðinum

27. apr. 2016

Hafnarfjarðarbær og Markaðsstofa Hafnarfjarðar skrifuðu á dögunum undir samkomulag um samstarf á sviði atvinnu-, ferða- og markaðsmála. Eitt af hlutverkum Markaðsstofu Hafnarfjarðar er að efla atvinnuþróun og starfa að ferða- og markaðsmálum í Hafnarfirði í nánu samstarfi við atvinnulíf, sveitarfélag og aðra þá sem vilja stuðla að uppbyggingu í bænum.

Markaðsstofa Hafnarfjarðar mun í verkefnum sínum leggja ríka áherslu á að efla núverandi atvinnulíf með öflugri upplýsingagjöf og kynningum, laða til bæjarins ný fyrirtæki og stofnanir, auka sýnileika og bæta samkeppnisstöðu Hafnarfjarðar ásamt því að auka vega og vanda ferðaþjónustu á svæðinu. Markaðsstofan, með Ásu Sigríði Þórisdóttur nýskipuðum framkvæmdstjóra í brúnni, mun vinna jafnt og þétt að því að stuðla að auknu samstarfi og samvinnu milli fyrirtækja í Hafnarfirði, bæði út frá staðsetningu og starfsemi og þar með stuðla að vexti í verslun og þjónustu. Samhliða verður áhersla lögð á að kynna Hafnarfjörð sem ákjósanlegan stað fyrir rekstur nýrra fyrirtækja eða fyrirtækja víðsvegar um landið sem eru að leita að nýjum stað fyrir rekstur sinn.

„Ég hef mikinn metnað fyrir því að kynna Hafnarfjörð fyrir öllum áhugasömum. Hér í Hafnarfirði höfum við allt til alls. Á sama tíma ætlum við að halda í allt það heimilislega við bæinn okkar og fá til okkar ferðamenn sem vilja vera með okkur Hafnfirðingunum á okkar heimavelli og upplifa það sem við höfum upp á að bjóða. Svolítið svona „Meet the locals“ stemning. Það eru endalaus tækifæri hér í Hafnarfirði og fjöldinn allur af veitingastöðum, nýjum verslunum og þjónustufyrirtækjum að spretta upp. Við viljum hlúa að og styrkja fyrirtækin sem í bænum eru, fá fleiri öflug fyrirtæki sem eru til í að taka þátt í frekari uppbyggingu með okkur, fjölga íbúum sem saman skapa það skemmtilega samfélag sem við viljum búa í samhliða því að gera Hafnarfjörð að enn skemmtilegri áfangastað fyrir innlenda og erlenda gesti“ segir Ása Sigríður, framkvæmdarstjóri Markaðsstofu Hafnarfjarðar .