Fréttir
  • HladvarpVitinn

Fjórtán hlaðvarpsþættir komnir í loftið nú þegar!

3. jan. 2020

Í ágúst 2019 var tekin ákvörðun um að fara af stað með nýja leið í upplýsingagjöf til Hafnfirðinga og annarra hagsmunaaðila Hafnarfjarðarbæjar og í september 2019 leit hlaðvarpið Vitinn dagsins ljós.  Í þáttum Vitans er  fjölbreytt þjónusta sveitarfélagsins tekin fyrir og fá hlustendur þannig tækifæri til að kynnast því fagfólki sem starfar á bak við tjöldin að metnaðarfullum verkefnum og þjónustuveitingu á fjölbreyttu sviði.  Næsti þáttur fer í loftið 10. janúar 2020.

Í Vitanum, hlaðvarpi Hafnarfjarðarbæjar, er fjölþætt þjónusta sveitarfélagsins tekin fyrir með góðu spjalli við áhugaverða einstaklinga sem allir eiga það sameiginlegt að vinna af áhuga og heilindum í þágu bæjarins. Umsjónaraðilar Vitans þessa mánuði hafa verið tveir, þau Sigurjón Ólafsson sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs og Árdís Ármannsdóttir, samskiptastjóri sveitarfélagsins. Umsjónaraðilar Vitans sigla sælir inn í nýtt ár og horfa með stolti og mikilli ánægju á þá fjórtán þætti sem settir hafa verið í loftið nú þegar. Í gegnum gott spjall við samstarfsfélaga hafa þau Sigurjón og Árdís m.a. tekið fyrir sögu bæjarins, Lífsgæðasetur St. Jó, menningarbæinn Hafnarfjörð, málefni hælisleitenda og flóttafólks, skipulagsmál, verkefni þjónustuvers, menntastefnu í mótun, menningu og listir, nýsköpun í skólastarfi og nýja kennsluhætti, mikilvægi tónlistar, mannauð bæjarins og sveitarfélagið sem vinnustað, innleiðingu núvitundar í skólastarfið, óhefðbundin tjáskipti og svo var það bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir, sem heimsótti Vitann í síðasta þætti ársins 2019.

Hægt er að hlusta á alla þætti Vitans hér en einnig er hægt að hlusta á þættina á hlaðvarpsveitum á borð við Spotify , Simplecast, Apple Podcast og Pocketcast 

Áhugaverðir þættir í undirbúningi og mótun á nýju ári

Fyrsti þáttur ársins 2020 verður settur í loftið föstudaginn 10. janúar og verður viðmælandi Vitans í þeim þætti Hulda Björk Finnsdóttir verkefnastjóri Brúarinnar hjá Hafnarfjarðarbæ.  Fleiri áhugaverðir þættir eru í undirbúningi og mótun næstu vikur og mánuði. Þannig mun Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, nú í janúar m.a. ræða um forvarnir og Heilsubæinn Hafnarfjörð og Björn Bögeskov um verkefni þjónustumiðstöðvar Hafnarfjarðarbæjar. Það er af nógu að taka og eru Hafnfirðingar og aðrir hagsmunaðilar hvattir til að hlusta á þættina og fræðast þannig enn betur og meira um fjölþætta þjónustu sveitarfélagsins.