Fréttir
  • Jolathorpid_1544797421940

Fjölskyldan saman í Jólaþorpið um helgina

14. des. 2018

Jólaþorpið í Hafnarfirði er opið laugardag og sunnudag frá kl. 12-17 og iðar af lífi og fjöri báða dagana. Litlu fagurlega skreyttu jólahúsin eru orðin landsþekktur söluvettvangur fyrir ýmiskonar gjafavöru, handverk og hönnun sem tilvalið er að setja í jólapakkann ásamt gómsætum veitingum til að borða á staðnum og ljúfmeti til að taka með heim á veisluborðið. Fjölskyldumeðlimir á öllum aldri ættu að geta fundið sér eitthvað til snæðings og skemmtunar í Hafnarfirði um helgina.

Sjá dagskrá Jólaþorpsins HÉR

Söngur og leikur á sviði á Thorsplani er í forgrunni á laugardag þar sem flutt verða atriði úr söngleik Víðistaðaskóla, félagar úr hljómsveit skólans og nemendur frá Tónkvísl leika nokkur jólalög. Kór Öldutúnsskóla syngur auk þess sem Gosi og Ósk frá leikhópnum Lottu verða með söngvasyrpu.  Jólasveinar verða á vappi um bæinn og Bettína verður á ferli á Strandgötunni með hestvagninn sinn bæði laugardag og sunnudag og geta áhugasamir fengið jólarúnt um bæinn fyrir sanngjarnt verð. Á sunnudaginn verða haldin tvö jólaböll á Thorsplani, jólaball Fríkirkjunnar kl. 11 og jólaball með Sigga Hlö og alvöru jólasveinum kl. 15 auk þess sem Grýla verður á vappi um bæinn

Gómsætar veitingar, hönnun og handverk

Í jólahúsunum verða ýmsar gómsætar veitingar fyrir sælkera til sölu eins og lambakjöt beint frá býli í ýmsum útfærslum, geitaostar og alls kyns hollustuvörur úr íslensku hráefni og heimagerður brjóstsykur, konfekt og karamella. Þá er hægt að versla ýmiskonar jólagjafavöru og handunnið íslenskt jólaskraut úr tré og plexigleri og alls kyns handverk, útsaumuð sængurver, viskustykki og púðar. Skartgripir með víkingalegu yfirbragði og skartgripir úr íslensku hrauni verða á sínum stað og hægt að kaupa jólakort, kertastjaka og fá umhverfisvæna innpökkunarþjónustu. Þá verða til sölu vönduð evrópsk leikföng og barnavörur af ýmsu tagi.