Fréttir
Fjárhagsáætlun 2019 samþykkt

12. des. 2018

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2019 og 4 ára áætlun 2019-2022 var samþykkt í bæjarstjórn í dag miðvikudaginn 12. desember. Rekstur Hafnarfjarðarbæjar hefur gengið vel síðustu ár.

Álagningarstuðull fasteignagjalda lækkaður og komið til móts við barnafjölskyldur

Álagningarstuðull fasteignaskatts atvinnuhúsnæðis lækkar úr 1,57% í 1,40% og fasteignaskattur af íbúðahúsnæði úr 0,28% í 0,26%. Útsvarsprósentan verður áfram 14,48% en hún var lækkuð úr 14,52% árið 2017. Systkinaafsláttur á leikskólagjöldum eykst og þriðja systkini í grunnskóla fær frítt fæðisgjald. Rekstur Hafnarfjarðarbæjar hefur gengið vel síðustu ár. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu upp á 985 milljónir króna á árinu 2019. Skuldaviðmið heldur áfram að lækka og verður samkvæmt áætluninni um 120% í árslok 2019. Áætlað veltufé frá rekstri eykst um 474 milljónir króna frá áætlun 2018. Áætlað er að fjárfesta fyrir 4,5 milljarða króna á árinu 2019.

 „Áfram er haldið á braut ráðdeildar og agaðrar fjármálastjórnunar. Fjárhagsstaða bæjarins styrkist ár frá ári og enn lækkar skuldaviðmið bæjarins. Álagningarstuðull fasteignagjalda er lækkaður á íbúða- og atvinnuhúsnæði til að koma til móts við umtalsverða hækkun fasteignamats. Festa í fjármálastjórn bæjarins og hagkvæmur rekstur skilar sér í aukinni þjónustu og meiri slagkrafti í starfsemi bæjarins. Framundan er mikil uppbygging á ýmsum sviðum í Hafnarfirði, jafnt í þjónustu sem og á innviðum. “ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Velferð, forvarnir og snemmtæk þjónusta

Félagslegum íbúðum verður áfram fjölgað markvisst og keyptar verða íbúðir fyrir um 500 milljónir króna á ári næstu fjögur ár. Auknum fjármunum verður varið í að þróa og festa nýja snemmtæka þjónustu í sessi en unnið hefur verið að verkefninu allt árið 2018. Verkefnið snýr að því að finna leiðir til að bæta félags-, skóla- og geðheilbrigðisþjónustu við leik- og grunnskólabörn bæjarins og fjölskyldur þeirra. Stöðugildum sálfræðinga til að sinna leik- og grunnskólum var fjölgað á árinu 2018. Dvalargjald á leikskóla mun áfram haldast óbreytt sjötta árið í röð. Aukinn systkinaafsláttur er af dvalargjaldi í leikskólum og tekjutengdur afsláttur leikskólagjalda verður aukinn. Systkinaafslætti í fæðisgjöldum nemenda í grunnskóla verður komið á. Unnið verður áfram að verkefni um fjölþætta heilsurækt 65 ára og eldri í Hafnarfirði sem og haldið verður áfram að þróa og bæta þjónustu við eldri borgara í heimahúsum.

Meðfylgjandi eru fylgigögn fjárhagsáætlunar: