Fréttir
  • Fraedslustjori

Fanney ráðin fræðslustjóri

13. apr. 2016

Fanney Dóróthe Halldórsdóttir hefur verið ráðin sviðsstjóri fræðslu og frístundaþjónustu Hafnarfjarðarbæjar. Starf fræðslustjóra var auglýst laust til umsóknar í febrúar og var Fanney valin úr hópi fjórtán umsækjenda. Fanney hefur gegnt stöðu skólastjóra Grunnskólans í Sandgerði frá árinu 2007 en hún hefur starfað við skólann frá árinu 1996.

Viðamikil stjórnunarreynsla og þekking á íslensku skólasamfélagi


FanneyHalldorsdottir

Fanney er með B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands, diplómagráðu í stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands og er að ljúka M.Ed. gráðu í stjórnun menntastofnana frá sama skóla. Hún hefur viðamikla reynslu af stjórnun en frá árinu 2007 hefur Fanney gegnt stöðu skólastjóra Grunnskólans í Sandgerði og forstöðumanns Skólasels, frístundaheimilis. Hún tók einnig við forstöðu bæjarbókasafns Sandgerðis árið 2009. Áður en Fanney tók við starfi skólastjóra Grunnskólans í Sandgerði gegndi hún stöðu aðstoðarskólastjóra frá árunum 2005-7 og á árunum 1996-2005 sinnti hún umsjónarkennslu og deildarstjórastarfi við sama skóla. Fanney hefur í starfi sínu sem skólastjóri m.a. innleitt heilsueflandi hugsun í skólastarfið og er Grunnskólinn í Sandgerði í dag heilsueflandi skóli, einn grunnskóla á Suðurnesjum. Skólinn vinnur einnig eftir hugmyndafræði uppeldis og ábyrgðar sem Fanney átti frumkvæði að. Fanney þykir hafa sýnt mikinn metnað í fyrri störfum, mikla leiðtogahæfileika í verkefnum sínum og þykir hafa náð eftirtektarverðum árangri með skólastarfið í Sandgerði.

Við bjóðum Fanneyju velkomna í hóp starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar!