Fréttir
 • IMG_8063

Faglegt grunnskólastarf kallar á öflugt samstarf allra

19. nóv. 2020

Faglegt og gott grunnskólastarf kallar á öflugt samstarf allra hlutaðeigandi

Mat á skólastarfi er virkur þáttur í starfi grunnskólanna og mikilvægt innlegg í þróun skólastarfsins og mörkun umbótaverkefna innan hvers skóla.

Nú liggur fyrir skýrsla Skólavogar sem byggir á niðurstöðum viðhorfskannana sem lagðar voru fyrir nemendur og starfsfólk allra grunnskóla Hafnarfjarðarbæjar skólaárið 2019-2020. Nemendakönnun var lögð fyrir á tímabilinu ágúst 2019 – júní 2020 og könnun fyrir starfsfólk í mars og apríl 2020. Í ár var ekki lögð könnun fyrir yngri nemendur vegna Covid19. Niðurstöður gefa bæði ákveðnar vísbendingar um það sem vel er gert og um viðfangsefni og verkefni sem þörf er á að sinna til að efla skólastarfið og vinna að frekari skólaþróun. Grunnskólar Hafnarfjarðar voru á þessum tímapunkti 8 talsins (9 í dag með sjálfstæði Engidalsskóla). Börn á grunnskólaaldri með lögheimili í bænum voru 4.317 skólaárið 2019 til 2020. Þar af eru 4.062 í grunnskólum sveitarfélagsins eða um 94,1%.

Skýrsla Skólavogar var kynnt á fundi fræðsluráðs Hafnarfjarðar í gær. Sjá niðurstöður fyrir grunnskóla Hafnarfjarðar skólaárið 2019-2020Á bls. 44-48 er að finna samantekt á niðurstöðum úr báðum könnunum.

Nemendur leggja gott mat á eigin vinnubrögð, námsgetu og þrautseigju í námi

Niðurstöður nemendakönnunar í 6. -10. bekk eru við meðaltal í öllum þáttunum. Þannig leggja hafnfirskir nemendur gott mat á eigin þrautseigju í námi sem skilar 7. sæti af 40 og er Hafnarfjarðarbær meðal þeirra 25% sveitarfélaga sem eru með hvað hagstæðustu niðurstöðuna í þessum þætti. Trú á eigin vinnubrögðum í námi og trú á eigin námsgetu er einnig meðal þeirra 25% sveitarfélaga sem eru með hvað hagstæðustu niðurstöðurnar. Vellíðan meta nemendur til meðaltals. Þegar skoðað er hvernig nemendur meta ánægju sína af lestri þá fer sú ánægja minnkandi með aldrinum. Tíðni eineltis meta nemendur jafnframt háa - frá 7% þar sem matið er lægst og 18,2% þar sem matið er hæst. Þannig má leiða lyktum að því að nemendum í 6. – 10. bekk líði nokkuð vel og hafi gott sjálfstraust og trú á eigin getu. Full ástæða þykir til að gaumgæfa og vinna sérstaklega með niðurstöður er varða minnkandi ánægju af lestri og einelti.

Aukinn árangur nemenda í samræmdum prófum

Nemendur í grunnskólum Hafnarfjarðar ná auknum árangri í samræmdum prófum á skólaárinu 2019-2020. Það sýnir sig bæði sem bæting þeirra, sem hópur, gagnvart sjálfum sér (frá síðasta samræmda prófi) og miðað við jafnaldra sína á landinu á sama tíma. Þetta á sérstaklega við nemendur í 7. bekkjum sem sýna miklar framfarir miðað við sjálfa sig (frá 4. bekk) og jafnaldra í 7. bekk. Í 4. bekk sjást framfarir (miðað við fyrri árganga í Hafnarfirði) og í 9. bekk eru áþekkar niðurstöður og áður. Niðurstöður endurspegla það sem tekið hefur verið eftir í hafnfirskum grunnskólum, þ.e. virðisauki er í skólastarfinu þannig að hafnfirskir nemendur bæta stöðu sína í samanburði við jafnaldra á landinu frá því að þeir hefja grunnskólanám og þar til þeir ljúka því. 

Tækifæri til úrbóta kalla á öflugt samstarf allra hlutaðeigandi aðila

Starfsmannakönnunin 2020 er töluvert frábrugðin því sem hún hefur verið þannig að samanburður milli ára er ekki mögulegur nema hvað varðar ákveðnar spurningar. Niðurstöður eru við meðaltal í 26 samanburðarþáttum af 28. Hafnarfjarðarbær er í tveimur þáttum meðal þeirra 25% sveitarfélaga sem fengu hagstæðustu niðurstöður en það er annars vegar samráð um kennslu og snýr hins vegar að hlutfalli kennara sem sóttu símenntun í fleiri en tíu daga undanfarið ár. Tveir þættir eru vel fyrir neðan meðaltal; gagnsemi starfsmannaviðtala og samvinna um kennslu og er Hafnarfjarðarbær jafnframt í hópi þeirra 25% sveitarfélaga sem eru með óhagstæðasta útkomu í þáttum sem snúa að vinnuálagi, jákvæðum áskorunum í starfi, skörun vinnu og einkalífs, stuðningi frá næsta yfirmanni, stuðningi við kennara varðandi nemendur með náms- og hegðunarerfiðleika, faglegum stuðningi skólastjóra við kennara og samvinnu um kennslu. Samkvæmt þessum niðurstöðum þá eru töluverð tækifæri til úrbóta meðal starfsmanna í grunnskólum Hafnarfjarðar. Slíkar úrbætur kalla á öflugt og gott samstarf allra hlutaðeigandi aðila; sveitarfélags, skóla/starfsfólks, foreldra og nemenda. Skólastarfið er flókið og þarf oft á tíðum að takast á við margbrotin samfélagsleg verkefni og áskoranir þar sem umhverfi skólans er ekki síður áhrifavaldur. Þessi skýrsla er góður leiðarvísir um þætti sem nauðsynlegt er að vinna sérstaklega með.

Helstu niðurstöður nemendakönnunar í 6. – 10. bekk

 • Virkni: Nemendur tjá virkni sína við meðaltal Skólavogarinnar og eru í 7. sæti 40 sveitarfélaga hvað varðar þrautseigju í námi, í 5. sæti af 40 varðandi trú á eigin vinnubrögðum og í 7. sæti af 41 um trú á eigin námsgetu. Í öllum þessum þáttum er Hafnarfjörður í hópi þeirra 25% sveitarfélaga sem eru með hagstæðustu útkomuna. Ánægju af lestri meta nemendur þannig að bærinn er 21. sæti af 41. Aðrir þættir eru áhugi á stærðfræði og náttúrufræði.
 • Líðan: Nemendur tjá líðan sína við meðaltal Skólavogarinnar. Tíðni eineltis meta nemendur mjög misjafnt milli skóla; allt frá 7% til 18,2%. Aðrir þættir taka til sjálfsálits, stjórnar á eigin lífi, vellíðunar, tíðni hreyfingar og mataræðis.
 • Skóla- og bekkjarandi: Nemendur tjá skóla- og bekkjaranda við meðaltal Skólavogarinnar. Samsömun við nemendahópinn er í 21. sæti af 40. Nemendur meta samband sitt við kennara sem svarar til 24. sætis af 41 sveitarfélagi. Virkni sína í kennslustundum meta þeir til 24. sætis af 41. Aga í kennslustundum meta þeir til 15. sætis af 41 sveitarfélagi.

Helstu niðurstöður starfsmannakönnunar

 • Starfið: Allir þættir teljast til meðaltals Skólavogar, en bærinn meðal 25% sveitarfélaga sem eru með óhagstæðustu útkomuna varðandi vinnuálag. Aðrir þættir ná til skýrleika hlutverks, ágreinings um hlutverk og áskorana í starfi.
 • Starfsmenn: Allir þættir teljast til meðaltals Skólavogar og enginn undir. Nokkur munur er á hlutfalli ánægðs starfsfólks milli skóla hvað varðar skuldbindingu til vinnustaðarins og leikni í starfi. Bærinn er meðal 25% sveitarfélaga sem eru með óhagstæðustu útkomuna varðandi skörun vinnu og einkalífs.
 • Vinnustaðurinn: Allir þættir teljast til meðaltals Skólavogarinnar. Fjölmargir þættir mælast mismunandi milli skóla. Ná þessir þættir m.a. til starfsanda, stuðnings frá samstarfsfólki, stuðnings við nýsköpun, mismununar og eineltis.
 • Stjórnun: Allir þættir nema einn teljast til meðaltals. Hlutfall starfsmanna sem telja gagn af starfsmannaviðtali er vel undir meðaltali Skólavogar og er bærinn er í hópi þeirra 25% sveitarfélaga sem eru með hvað lakasta útkomu í þessum þætti.
 • Kennarar - kennarastarfið: Ánægja með kennarastarfið og trú kennara á eigin getu mælast aðeins ofan við meðaltal Skólavogar.
 • Starfsumhverfi kennara: Í fjórum af fimm þáttum í þessum flokki raðast bærinn meðal 25% sveitarfélaga sem eru með lægstu útkomuna.
 • Símenntun kennara: Við meðaltal Skólavogar. Bærinn raðast í 5. Sæti af 24 sveitarfélögum sem eru með hagstæðustu útkomu hvað varðar hlutfall þeirra sem sóttu símenntun fleiri en 10 daga á undangengnum 12 mánuðum.

Yfirsýn yfir stöðu mála og aðstoð við mörkun umbótaverkefna

Skýrslu þessari er fyrst og fremst ætlað að vera upplýsandi fyrir stjórnendur og starfsfólk grunnskóla og jafnframt veita fræðsluyfirvöldum nauðsynlegar upplýsingar um ákveðna þætti skólastarfsins í bænum. Skólapúlsinn, sem liður í innra mati, hentar vel til að fá álit þeirra sem koma að skólastarfinu og mikilvægt er að gaumgæfa þau sjónarmið og viðhorf sem þar koma fram. Tilgangurinn er að skólarnir geti nýtt niðurstöður og samanburð til að sjá hvað vel tekst til og finna sér sóknarfæri og umbótaverkefni. Einnig að aðrir hagsmunaaðilar skólastarfsins, s.s. foreldrar og fræðsluyfirvöld, fái yfirsýn yfir stöðuna og geti lagt sitt af mörkum lögum samkvæmt til að aðstoða skólanna á grundvelli gagna.

Sjá niðurstöður Skólavogar fyrir grunnskóla Hafnarfjarðar skólaárið 2019-2020.