Fréttir
  • IMG_8881

Endurskinsmerki aðgengileg í sundlaugum

13. nóv. 2019

Öll sex ára börn fengu endurskinsmerki að gjöf frá Heilsubænum Hafnarfirði í haust þegar grunnskólaganga þeirra hófst. Verkefnið er til þess fallið að auka öryggi barnanna og gera þau sýnilegri á ferðum sínum um bæinn. Endurskinsmerki eru aðgengileg í tveimur af sundlaugum Hafnarfjarðar, í Ásvallalaug og Suðurbæjarlaug, fyrir aðra þá foreldra og forráðamenn sem vilja bæta öryggisbúnað barna sinna.

Foreldrar og forráðamenn eiga að vera fyrirmyndir barna sinna

Nú er dagurinn farinn að styttast og nauðsynlegt að huga að þeim hættum sem myrkrið getur haft í för með sér. Endurskinsmerki á fötum og ljós á hjólum auka öryggi og sýnileika og skipta gríðarlega miklu máli í þeim aðstæðum sem skapast yfir vetrarmánuðina, í myrkri og hálku. Lögreglan minnir reglulega á nauðsyn þess að nota endurskinsmerki og hvetja forráðamenn barna markvisst til að tryggja endurskinsnotkun gagngert til að auka öryggi og sýnileika í umferðinni. Hvatningin nær einnig til fullorðinna og notkunar þeirra á endurskinsmerkjum. Foreldrar og forráðamenn eiga að vera fyrirmyndir barna í þessu líkt og mörgu öðru. Heilsubærinn Hafnarfjörður vill með þessu framtaki opna á aðgengi að endurskinsmerkjum fyrir alla áhugasama og minnir á að best er að hafa endurskinsmerki fremst á ermum, hangandi meðfram hliðum, á skóm eða neðarlega á buxnaskálm. Því meira endurskin á því fleiri stöðum því betra. 

Hægt er að nálgast endurskinsmerkin í afgreiðslu á opnunartíma sundlauganna. 

IMG_8895