Fréttir
  • Endurskinsmerki-Solarsolstodur

Endurskinsmerki að gjöf á dimmustu dögum ársins

22. des. 2019

Félag eldri borgara í Hafnarfirði fékk fyrir helgi, þegar stystu og þar með dimmustu dagar ársins standa yfir, endurskinsmerki að gjöf frá Heilsubænum Hafnarfirði. Sigurður Björgvinsson varaformaður Félags eldri borgara í Hafnarfirði tók á móti gjöfinni. Hér með honum á myndinni að ofan eru þau Linda Hildur Leifsdóttir verkefnastjóri Félags eldri borgara í Hraunseli og Sjöfn Guðmundsdóttir, deildarstjóri stoðþjónustu á fjölskyldu- og barnamálasviði Hafnarfjarðarbæjar. 

Full dagsbirta í gær aðeins 4 klukkustundir og 9 mínútur

Vetr­ar­sól­stöður voru í gær, sunnudaginn 22. des­em­ber, Á stór-höfuðborgarsvæðinu voru vetr­ar­sól­stöður kl. 04:19 í gærmorgun, sól­in reis kl. 11:22 og var hæst á lofti 2,7 gráður yfir sjón­deild­ar­hring kl. 13:26. Sól­in á Vetrarsólstöðum var sest kl. 15:31 og ekki löngu síðar var orðið myrkt. Þessar tímasetningar verða u.þ.b. þær sömu í dag á Þorláksmessu en þó munar nokkrum sekúndum í sólarátt sem þýðir að þessa dagana standa stystu dagar ársins yfir. Full dagsbirta í gær voru aðeins 4 klukkustundir og 9 mínútur í gær. 

Endurskinsmerki aðgengileg fyrir alla áhugasama

Endurskinsmerki frá Heilsubænum Hafnarfirði eru nú aðgengileg í þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar og í Bókasafni Hafnarfjarðar fyrir áhugasama á öllum aldri. Endurskinsmerkin voru framleidd og afhent sem gjöf til allra sex ára barna haustið 2019 þegar grunnskólaganga þeirra hófst. Eftirspurn og áhugi varð til þess að ákveðið var að framleiða fleiri endurskinsmerki sem nú eru öllum aðgengileg. Heilt yfir þá er markmið með greiðu aðgengi að endurskinsmerkjum að auka öryggi allra í umferðinni og auka sýnileika Hafnfirðinga og vina Hafnarfjarðar á ferðum sínum um bæinn.