Fréttir
  • Votlendi2

Endurheimt votlendis í Hafnarfirði

3. okt. 2019

Verklegar framkvæmdir við endurheimt votlendis í Krýsuvíkur- og Bleiksmýri hófust í vikubyrjun og ná þær yfir um sextíu hektara svæði. Framkvæmdum í Bleiksmýri lauk í gær og hefjast framkvæmdir í Krýsuvíkurmýri í dag. Votlendissjóður hefur með útreikningum sínum áætlað að umræddar framkvæmdir bindi um 1.100 tonn af kolefni í jörðu sem nemur akstri 120 fólksbíla á ársgrundvelli. Talið er að um 66% af losun gróðurhúslofttegunda á Íslandi komi frá röskuðu votlendi og því um að ræða mjög mikilvægt samfélagslegt verkefni.

Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkti á fundi sínum 11. september síðastliðinn beiðni Votlendissjóðs um framkvæmdaleyfi sem snýr að endurheimt votlendis í Krýsuvík. Framkvæmdir við endurheimt eru þegar hafnar og ná þær annars vegar til Krýsuvíkurmýri og hins vegar Bleiksmýri. Í Krísuvíkurmýri er um að ræða nýja framkvæmd við að færa land í fyrra horf. Í Bleiksmýri er aftur á móti um að ræða viðhald á fyrri aðgerð við endurheimt sem framkvæmd var árið 2016 samkvæmt samningi Landgræðslunnar og Hafnarfjarðarbæjar. Með samningi Votlendissjóðs við Landgræðsluna var forræði yfir verkefninu fært til Votlendissjóðs sem er jafnframt framkvæmdaaðili endurheimtar á svæðinu.

Liður í aðgerðum sveitarfélagsins

Þessi framkvæmd talar í takt við þær hugmyndir og aðgerðir sem lagðar eru til í umhverfis- og auðlindastefnu Hafnarfjarðarbæjar sem samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 18. maí 2018. Yfirlýst markmið stefnunnar er að tryggja öllum íbúum Hafnarfjarðar heilnæmt og öruggt umhverfi til lífs, leiks og starfs og skal taka tillit til hennar í allri starfsemi sveitarfélagsins. Þannig vill Hafnarfjarðarbær m.a. vera í fararbroddi í sjálfbærni og umhverfismálum, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og myndunar úrgangs. 

Sjá umhverfis- og auðlindastefnu Hafnarfjarðarbæjar

Ljósmynd sem fylgir frétt: Votlendissjóður