Fréttir
Drög að skýrslu um skipulag miðbæjar - frestur framlengdur

18. sep. 2019

Frestur til athugasemda við drög að skýrslu frá starfshópi um skipulag miðbæjar Hafnarfjarðar hefur verið framlengdur til og með 4. október næstkomandi. 

Fundargerð frá íbúafundi 17. september er að finna HÉR

Til og með 4. október 2019 gefst íbúum og öðrum áhugasömum tækifæri til að senda inn athugasemdir og viðbætur við fyrirliggjandi drög að skýrslu frá starfshópi um skipulag miðbæjar Hafnarfjarðar. Mikilvægt er að halda því til haga að þær teikningar sem liggja fyrir eru ekki hluti af vinnu eða tillögum starfshópsins. Þær þarf að vinna áfram í takt við þá forskrift (forsögn) sem starfshópurinn leggur til í skýrslu sinni og íbúum og öðrum áhugasömum gefst nú tækifæri til að hafa áhrif á. Öll vinna við skipulag miðbæjar er enn á hugmyndastigi.

Drög að skýrslu frá starfshópi um skipulag miðbæjar Hafnarfjarðar

Einnig er hægt að senda inn ábendingar á samráðsvettvanginum Betri Hafnarfjörður , í tölvupósti á hafnarfjordur@hafnarfjordur.is eða bréfleiðis til Hafnarfjarðarbæjar, Strandgötu 6, 220 Hafnarfirði til og með 4. október 2019. Á fundi bæjarráðs 15. ágúst 2019 var samþykkt að drög að skýrslu frá starfshópi um skipulag miðbæjar Hafnarfjarðar færu á vef Hafnarfjarðarbæjar í 30 daga.  Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar ákvað á fundi sínum 18. september 2019 að framlengja athugasemdafrest til 4. október.