FréttirFréttir

  • HeimsoknKenia

Draumaferð á Rey Cup með viðkomu í Hafnarfirði

8. júl. 2019

Draumaferðin frá Got Agulu í Kenía á Rey Cup í Reykjavík – með viðkomu í Hafnarfirði

Mikil fagnaðarlæti brutust út í Got Agulu í Kenía þegar ljóst var að fjarlægur draumur 15 drengja á aldrinum 11-14 ára um þátttöku á fótboltamóti á Íslandi varð að veruleika. Drengjalið skólans hefur æft stíft í vetur í von um að tækist að láta drauminn rætast og eftirvæntingin í þeirra hópi og stemningin í þorpinu fyrir ferðalagi þeirra var því mikil.  Hópurinn kom til Íslands á laugardag ásamt þremur fararstjórum og verður á Íslandi til 30. júlí. Bæjarstjóri Rósa Guðbjartsdóttir bauð hópnum í heimsókn í ráðhúsið í dag og bauð hópinn hjartanlega velkominn til Hafnarfjarðar og Íslands.

Stuðningur og velvilji fjölda aðila gerði drauminn að veruleika 

Undirbúningur hefur staðið yfir í á annað ár og verkefnið notið mikils stuðnings og velvilja frá fjölda aðila og allir sem koma að skipulagningu og framkvæmd Rey Cup hafa sýnt því bæði áhuga og gert allt til að láta verkefnið ganga upp, m.a. með niðurfellingu þátttökugjalda o.fl Fjársöfnun til að safna nægilega miklum peningum til að greiða fyrir ferðalag liðsins til Íslands var hrint af stað í maí á og á nokkrum vikum tókst að safna nægilegu fé frá einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum sem slógust í för með hinu frábæra liði #TeamGotAgulu. Hafnarfjarðarbær hefur stutt vel við verkefnið og boðið hópnum gistingu í skóla og aðra aðstoð og búið er að skipuleggja dagskrá fyrir hópinn frá upphafi ferðar til heimferðardags. Íþróttafélögin í Hafnarfirði hafa líka stutt við verkefnið og boðið fram aðstoð sína og er meðal annars vonast til að hægt verði að spila vináttuleiki við bæði FH og Hauka fyrir utan hina skipulögðu mótsdagskrá.

Enginn áður ferðast út fyrir sýslumörkin

Enginn drengjanna hefur ferðast út fyrir sýslumörkin áður og því er ferð út fyrir landsteinana og alla leið á íþróttamót með jafnöldrum þeirra á Íslandi draumur af þeirri stærðargráðu sem við er búum við allt aðrar aðstæður og kjör getum vart ímyndað okkur. Á síðustu 10 árum hafa hjónin og Hafnfirðingarnir, Paul Ramses Odour og Rosmary Atieno, haldið úti verkefni sem miðar að því að byggja og koma á fót leik- og grunnskóla í þorpinu Got Agulu í Kenía en þaðan eru þau bæði upprunin. Með samhentu átaki og mikilli vinnu tókst þeim að safna fjármagni til að byggja og hefja starfsemi leikskóla í þorpinu árið 2012 og grunnskólinn tók til starfa í ágúst 2015. Samtals eru 270 nemendur í skólanum, sem ber nafnið Verslo, þar sem nemendur og kennarar Verslunarskólans hafa stutt veglega við verkefnið. Verkefnin hafa notið stuðnings fjölda einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka á Íslandi og hafa Íslendingar meðal annars starfað með þeim að uppbyggingu skólastarfsins.

GotAgulu

Engin skipulögð íþróttastarfsemi en mikill áhugi á knattspyrnu

Í Got Agulu er engin skipulögð íþróttastarfsemi, en mikill áhugi á knattspyrnu. Undanfarið hefur því verið unnið að því að koma á fót íþróttafélagi í þorpinu og hafa starfsmenn grunnskólans verið krökkunum til leiðsagnar og stuðnings í því verkefni. Nú þegar hafa nokkur íslensk íþróttafélög veitt þeim mikilvægan stuðning og hvatningu og sent þeim nauðsynlegan búnað, s.s. takkaskó, bolta og búninga. Reglulegar æfingar hófust fljótlega og fyrir um tveimur árum kom upp þessi hugmynd að sækja um þátttökurétt fyrir eitt af liðunum þeirra á ReyCup sem er alþjóðlegt knattspyrnumót sem haldið er árlega á Íslandi. Nú er þessi draumur orðinn að veruleika. 

Fylgjast má með ferðalagi drengjanna frá Got Agulu HÉR en ferðalagið hefur verið ævintýri líkast og uppákomurnar margar og mis-erfiðar.