FréttirFréttir

Dagur leikskólans 2019

6. feb. 2019

Í dag 6. febrúar er dagur leikskólans og af því tilefni hefur leikskólastarfið í bænum á sér hátíðlegan blæ.

 

Bæjarstjóri Rósa Guðbjartsdóttir heimsótti Hörðuvelli, elsta leikskóla bæjarins í morgun, en saga hans nær aftur til ársins 1935 þegar verkakvennafélagið Framtíðin hóf starfsemi á Hörðuvöllum. Bæjarstjóri tók þátt í söngfundi í tilefni dagsins og heimsótti allar fjórar deildar leikskólans. Börnin voru afar áhugasöm um gestina en einhverjir höfðu sagt foreldrum sínum frá því að "forstjórinn" væri að koma í heimsókn en aðrir vildu heldur kalla hana "borgarstjóra" eins og borgarstjórann Blíðu í Ævintýraflóa sem margir kannast greinilega við úr sjónvarpsþáttunum Hvolpasveit.

Í Hafnarfirði eru sautján leikskólar og um allan bæ er starfið brotið upp í tilefni dagisns. Á Álfasteini var foreldrum t.d. boðið í morgunverð, í Stekkjarási er boðið uppá opna efnisveitu næstu daga þar sem hægt er að staldra við og skapa eitthvað úr endurnýjanlegum efni og í Smáralundi vill svo skemmtilega til að leikskólinn fagnar í dag 35 ára afmæli og af því tilefni verður boðið uppá hugleiðslustund fyrir foreldra og gesti.

Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir þróunarfulltrúi leikskólaSvo skemmtilega vill til að í dag er leikskólastjórafundur og þar var Jenný þróunarfulltrúi leikskóla að baka vöfflur þegar ljósmyndari rann á lyktina í upphafi fundar. Til hamingju með dag leikskólans starfsfólk leikskóla, börn og foreldrar!

 

Frá heimsókninni í morgun. Á myndinni eru Sigþrúður Sigurþórsdóttir leikskólastjóri Hörðuvalla, Hrund Apríl Guðmundsdóttir aðstoðarmaður sviðsstjóra<hrundgu@hafnarfjordur.is>, Fanney Dóróthe Halldórsdóttir sviðsstjóri fræðslu- og frístundaþjónustu<fanney@hafnarfjordur.is>, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri, <rosa@hafnarfjordur.is> Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir þróunarfulltrúi leikskóla og Jóna Elín Pétursdóttir aðstoðarleikskólastjóri Hörðuvalla.