Cuxhaven-jólatréð sótt í Skógrækt Hafnarfjarðar
Bæjarstjóri Hafnarfjarðar ásamt fríðu föruneyti mætti í Skógrækt Hafnarfjarðar í morgunsárið til að fella og sækja jólatré sem marka mun miðju Jólaþorpsins yfir jólahátíðina. Hefð hefur verið fyrir því að jólatréð á Thorsplani komi frá vinabæjum Hafnarfjarðar. Lengi vel frá Fredriksberg í Danmörku en nú hin síðari ár frá Cuxhaven, vinabæ Hafnarfjarðar í Þýskalandi. Sú breyting verður í ár að jólatréð kemur beint frá Skógrækt Hafnarfjarðar og hefur jólatrénu nú þegar verið komið fyrir á Thorsplani.
Hér má sjá hópinn við jólatréð áður en það var fellt. Á myndinni eru þau: Steinar Björgvinsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og ræktunarstjóri Þallar, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Ingibjörg Sigurðardóttir garðyrkjustjóri Hafnarfjarðarbæjar.
Vinabær til rúmlega þrjátíu ára
Vinir Hafnarfjarðar í Cuxhaven hafa verið svo framtakssamir að gróðursetja tré í Skógrækt Hafnarfjarðar í svokölluðum Cuxhaven-lundi í heimsóknum sínum til Íslands allt frá árinu 1998 en formlegu vinabæjarsambandi milli bæjanna tveggja var komið á fyrir rúmum þrjátíu árum síðan. Öll þessi þrjátíu ár hefur Cuxhaven sent íbúum Hafnarfjarðar jólatré og fylgt sendingu eftir með heimsókn fyrstu helgina í aðventu. Því miður verður ekki að þeirri heimsókn þetta árið en sendinefnd mun fylgjast með tendrun á jólatré í beinu streymi beint frá Thorsplani til Þýskalands nk. föstudag.
Jólatrénu hefur verið komið fyrir á Thorsplani þar sem það bíður skreytingar.
Ljósin tendruð í vikulok
Ljósin á Cuxhaven-jólatrénu verða tendruð í Jólaþorpinu í Hafnarfirði föstudaginn 27. nóvember af Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Dietrich Becker sendiherra Þýskalands á Íslandi og Gísla Valdimarssyni formanni vinabæjarfélagsins Hafnarfjörður-Cuxhaven að viðstöddum örfáum leikskólabörnum vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Uppsetning Jólaþorpsins í Hafnarfirði er hafin og verður það opið frá kl. 13-18 alla laugardaga og sunnudaga á aðventunni.