Fréttir
  • IMG_1628

Bókaviti settur upp í Hellisgerði

6. okt. 2021

Skiptibókamarkaður sem er opinn allan sólarhringinn. Gríptu bók og gefðu aðra í staðinn

Í upphafi sumars viðraði Heilsubærinn Hafnarfjörður þá hugmynd við samtökin á bak við Karlar í skúrum að sjá um smíði á bókavita sem nýtast myndi sem skiptibókamarkaður allt árið um kring. Karlarnir í skúrnum notuðu sumarið 2021 til að hanna, smíða og mála vitann með aðkomu margra aðila. Bókavitinn var opnaður formlega í dag á upphafsdegi Bóka- og bíóhátíðar barnanna 2021 í Hafnarfirði og er hann öllum opinn.

IMG_1590_1633522624504

5O5A0678-vef

Leikskólabörn frá Víðivöllum og Álfabergi fylltu nýjan bókavita af bókum  

Bókavitinn þegar fullur af bókum

Bókavitinn hefur verið settur upp á horni Hellisgötu og Reykjavíkurvegar, við einn af nokkrum inngöngum í Hellisgerði, skrúðgarð Hafnfirðinga. Það þótti viðeigandi á upphafsdegi Bóka- og bíóhátíðar barnanna að fá hóp leikskólabarna til að taka þátt í formlegri opnun á vitanum með því að fylla hann af bókum að heiman. Hvert barn lét sína bók í vitann og nú er hann uppfullur af ævintýrum og áhugaverðum bókum. Lestur og lesskilningur er Hafnfirðingum hugleikinn og er verkefnið liður í því að ýta enn frekar undir aðgengi að bókum. Hafnfirðingar og vinir Hafnarfjarðar eru hvattir til að nýta sér bókavitann í leit sinni að ævintýrum og nýrri þekkingu, til að grípa sér bók og gefa aðra í staðinn.

Samfélagslegt verkefni sem ýtir undir samveru og félagsleg tengsl

Karlar í skúrum er samfélagslegt verkefni sem Rauði krossinn hrinti af stað í upphafi árs 2018 og er nú m.a. til húsa að Helluhrauni 8 í Hafnarfirði. Verkefnið, sem er að ástralskri fyrirmynd, er vel þekkt víða um Evrópu og byggir á þeirri hugmyndafræði að karlmenn tali best saman þegar þeir eru að vinna öxl í öxl með eitthvað í höndunum. Skúrinn sjálfur er hugsaður sem öruggur og vinalegur vettvangur fyrir karlmenn frá 18 ára aldri til að hittast og vinna að skapandi og skemmtilegum verkefnum, saman eða með sjálfum sér á sínum eigin hraða og forsendum. Skúrinn að Helluhrauni er opinn alla virka daga frá kl. 10-12 auk þess sem allir virkir meðlimir í verkefninu hafa lykil og geta nýtta aðstöðuna þegar þeim hentar.

IMG_1620Kynslóðirnar mættust í Hellisgerði í dag í nafni læsis og bóka. Lestur er sannarlega lífsins leikur. 

Bóka- og bíóhátíð barnanna 2021

Bóka- og bíóhátíð barnanna, menningarhátíð fyrir börn í Hafnarfirði, er haldin vikuna 6. - 13. október. Þessa vikuna verður sérstök áhersla lögð á bækur og kvikmyndir innan leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar og skapandi og skemmtileg verkefni sem tengjast hvoru tveggja. Tilgangur hátíðarinnar er að efla áhuga barna á lestri og læsi í víðum skilningi og styður hátíðin við læsisverkefni leik- og grunnskóla bæjarins sem í gangi hefur verið síðustu misseri. Skólar og söfn bæjarins taka virkan þátt í hátíðinni með uppbroti á skólastarfi, viðburðum og smiðjum.   

Dagskrá Bóka- og bíóhátíðar barnanna 2021