Fréttir • Baejarlistamadurinn2019

Björk er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2019

24. apr. 2019

Fjöllistakonan Björk Jakobsdóttir hlaut í dag titilinn bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2019. Björk hefur í gegnum tíðina sinnt fjölbreyttum hlutverkum og starfað meðal annars sem leikkona, leikstjóri, framleiðandi, leikskáld og uppistandari. Bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, Rósa Guðbjartsdóttir, veitti viðurkenninguna við hátíðlega athöfn í Hafnarborg í dag á síðasta degi vetrar. Athöfnin er liður í hátíðinni Björtum Dögum sem stendur yfir í Hafnarfirði til sunnudags.

Bæjarlistamaður ársins í ár hefur lagt mikið af mörkum til að efla menningarlífið í Hafnarfirði og unnið meðal annars með ungu fólki að verkefnum sem hafa vakið mikla athygli. „Hjartað slær í Hafnarfirði“ sagði Björk þegar hún tók hrærð og stolt við viðurkenningunni. Þakkaði hún Hafnfirðingum fyrir tilnefninguna og samferðafólki sína fyrir öll ævintýrin á tæplega 30 ára starfsævi og þá ekki síst þeim ungmennum sem í dag skipa, að hennar mati, unglingalandslið í sviðslistum. „Það eflir sjálfsmynd allra unglinga að eiga hóp af frábæru ungu listafólki sem leiðir leik og tónlistarsenu framtíðarinnar á Íslandi. Þessir krakkar eru líklegir til að taka forystu í félagsmálum og skapandi störfum. Þetta eru þeir krakkar sem vinna með skóla við að skemmta börnum og unglingum með því að skapa tónlist, myndbönd, skemmtiþætti og leikrit. Það er mikilvægt fyrir börn og unglinga að eiga sterkar og jákvæðar fyrirmyndir“ segir Björk stolt.

Bjork2

Björk hefur, allt frá útskrift úr leiklistarskóla Íslands árið 1993, starfað að leiklistarmálum á Íslandi með höfuðstöðvar í Hafnarfirði. Strax eftir útskrift stofnaði hún, ásamt fleirum, Hafnarfjarðarleikhúsið í gamla frystihúsinu á Norðurbakkanum. Þar var rekið öflugt leikhús sem sérhæfði sig í nýjum íslenskum verkum eins og Himnaríki eftir Árna Ibsen sem vakti mikla athygli á sínum tíma. Árin eftir 2005, eftir sýningar á metsölustykkinu Sellófon þar sem Björk fór yfir líf nútímakonunnar, vann hún mest erlendis við að leikstýra Sellófon í hinum ýmsu löndum Evrópu. Árið 2010 stofnaði Björk, ásamt fleirum, Gaflaraleikhúsið sem hefur nú aðsetur við Víkingastræti í Hafnarfirði. Þar hefur hún síðustu 10 árin stýrt fjölda nýrra íslenskra leikverka. Vinna hennar með ungmennum hefur vakið verðskuldaða athygli og gert það að verkum að unglingar landsins flykkjast nú í Gaflaraleikhúsið í þúsundatali. Björk hefur einnig verið vítamínsprautan í endurvakningu á blómlegu leiklistarlífi í Flensborgarskólanum samhliða því að bjóða unglingadeildum í grunnskólum Hafnarfjarðar upp á vandaða og öfluga kennslu í skapandi listum. Mamma Klikk eftir Gunnar Helgason í leikstjórn Bjarkar er væntanlegt til sýninga í haust í Gaflaraleikhúsinu en þegar hafa sýningar eins og Unglingurinn, Konubörn, Bakaraofninn, Stefán rís og Blakkát notið mikilla vinsælda.

„Það á vel við að leiða saman listina og vorið með því að tilkynna bæjarlistamann Hafnarfjarðar 2019 í dag á síðasta vetrardegi enda fylgir bjartsýni, gróska og kraftur bæði listinni og vorinu. Fyrir hönd Hafnfirðinga þakka ég Björk fyrir óeigingjarnt og frábært starf og vona að nafnbótin bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2019 sé hvatning til áframhaldandi góðra verka fyrir Hafnarfjörð og sérstaklega unga fólkið okkar. Það er hverju bæjarfélagi mikilvægt að eiga fólk eins og Björk, einstaklinga sem með óeigingjörnu starfi og af ástríðu leggja sitt af mörkum til að menningarlífið megi blómstra og vökva vaxtarsprotana og stuðla þar með að betra samfélagi og bjartari framtíð segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í ræðu sinni við afhendingu á viðurkenningunni. Við val á bæjarlistamanni Hafnarfjarðar er kallað eftir tilnefningum bæjarbúa og árlega berst fjöldi tilnefninga sem sýnir glöggt þann kraft og þá grósku sem ríkir í hafnfirsku samfélagi.

Þeir sem hlotið hafa nafnbótina bæjarlistamaður Hafnarfjarðar í gegnum árin eru:

 • 2005 Sigrún Guðjónsdóttir (Rúna), myndlistarmaður
 • 2006 Elín Ósk Óskarsdóttir, söngkona
 • 2007 Jónína Guðnadóttir, myndlistarmaður
 • 2008 Sigurður Sigurjónsson, leikari
 • 2009 Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, söngkona
 • Ekki voru útnefndir bæjarlistamenn á árunum 2010 til 2013
 • 2014 Andrés Þór Gunnlaugsson, tónlistarmaður
 • Ekki voru útnefndir bæjarlistamenn á árunum 2015 til 2016
 • 2017 Steingrímur Eyfjörð, myndlistarmaður
 • 2018 Björgvin Halldórsson, tónlistarmaður