Fréttir
  • Mynd3Rosa

Bjartar vonir vakna - jólahugvekja bæjarstjóra 2020

23. des. 2020

Jólahugvekja bæjarstjóra 2020

Við bíðum jólahátíðarinnar við óvenjulegar aðstæður og gerum upp ár sem engan óraði fyrir. Á aðventunni undirbúum við hátíð ljóss og friðar vongóð um að bjartari dagar séu framundan. Þetta ár hefur verið eitt allsherjar lærdómsferli. Við höfum tekist saman á við mótlæti, höfum lært nýjar leiðir í störfum okkar og félagslífi. Við höfum tekist á við áskoranir engu líkar, höfum kynnst hvert öðru og okkur sjálfum á nýjan hátt. Við höfum upplifað nýjan veruleika – saman.

Ein stór fjölskylda

Hér í Hafnarfirði hófst árið með hörmulegu slysi við Hafnarfjarðarhöfn þegar þrír ungir piltar voru hætt komnir og tveir þeirra í lífshættu í langan tíma. Það var einstakt að finna hinn áþreifanlega samhug og náungakærleik sem kom fram í kjölfarið í bænum okkar. Óvissan var mikil en Hafnfirðingar urðu eins og ein stór fjölskylda sem bað fyrir bata þeirra og við sáum kraftaverkið gerast. Mikil gleði fylgdi þeirri guðsgjöf. En lífið tekur líka, ástvinir hverfa á braut, og er hugur minn hjá þeim sem halda jól í skugga áfalla á árinu.

RosaGudbjartsdottirBaejarstjori

Jólaljósin ylja hjörtum

Hafnarfjarðarbær er orðinn sannkallaður jólabær. Hér voru jólaljósin sett upp fyrr en nokkru sinni og bærinn hefur aldrei verið jafn fallega skreyttur. Það var gaman að sjá hve bæjarbúar tóku fljótt við sér og lýstu líka upp híbýli sín og lóðir. Ekki er ofsögum sagt að mild og falleg ljósin veiti birti og yl í hjörtu okkar. Fólk hefur og streymt í miðbæinn til að njóta fallegu ljósanna og í Hellisgerði, þar sem skapað var í fyrsta sinn einstakt jólaævintýraland. Jólaljósadýrðin og náttúrufegurðin er stórkostleg í þessum brátt aldar gamla lystigarði okkar Hafnfirðinga. Það hefur verið dásamlegt að sjá viðtökurnar og hve bærinn okkar og mannlífið hefur blómstrað á aðventunni.

Bjartar vonir á nýju ári

Framundan er nýtt ár, ný tækifæri og nýjar áskoranir. Ég hlakka til að takast við þær með ykkur á nýju ári með gleðina í fararbroddi. Þegar kærleikurinn er í öndvegi eru okkur allir vegir færir. Samstarfsfólki mínu hjá Hafnarfjarðarbæ þakka ég af heilum hug fyrir ómetanlega frammistöðu og fagmennsku á árinu sem er að líða. Það hefur þurft mikla samheldni og samhug til að láta alla þá fjölbreyttu þjónustu, sem bæjarfélagið veitir, ganga upp jafn vel og raun ber vitni. Ykkur öllum og öðrum vinum Hafnarfjarðar færi ég mínar bestu óskir um góð og gleðileg jól og farsæld á nýju ári.  

Rósa Guðbjartsdóttir
bæjarstjóri Hafnarfjarðar