Fréttir
  • SMTInnleidingBjarkalundur

Bjarkalundur orðinn fullgildur SMT leikskóli

12. nóv. 2019

Leikskólinn Bjarkalundur hefur útskrifast sem fullgildur og sjálfstæður SMT leikskóli. Bjarkalundur hóf starfsemi sína haustið 2016 og var strax ákveðið að skólinn myndi notast við skólafærni SMT. Markmið SMT skólafærni er að stuðla að góðu námsumhverfi, æskilegri hegðun og að auka félagsfærni og þannig er jákvæðri hegðun veitt sérstök athygli og hún styrkt. Allir grunnskólar Hafnarfjarðar hafa innleitt SMT skólafærni og einnig fjölmargir leikskólar. Bjarkalundur bætist nú í hóp þeirra.

Bjarkalundur hóf innleiðslu á SMT um leið og skólinn tók til starfa á haustmisseri 2016 og hefur innleiðingarferlið því staðið yfir í um þrjú ár. Teymi innan skólans skipað deildarstjórum, leikskólastjóra, aðstoðarleikskólastjóra og sérkennslustjóra hefur á tímabilinu unnið náið með og fundað reglulega með Elísu R. Ingólfsdóttur, SMT innleiðara. Ásthildur B. Snorradóttir, talmeinafræðingur, kom jafnframt að verkefninu þar sem notast er við boðskiptareglur úr Bínubókunum sem Ásthildur er höfundur af. Nú við útskrift tekur starfsfólk skólans alveg við keflinu og heldur áfram því flotta og faglega starfi sem búið er að leggja grunninn að og tryggir þannig áframhaldandi virka notkun á verkfærum SMT. Með því að nýta verkfæri SMT í skólastarfi aukast líkurnar á að starfsfólk skólans noti sambærilegar aðferðir í samskiptum við börnin. Þannig vita börnin frekar til hvers er ætlast af þeim og meiri ró skapast innan hópsins.

Til hamingju nemendur, starfsfólk og foreldrar á Bjarkalundi með útskriftina!

Hægt er að skoða fleiri myndir frá útskrift á Facebook síðu Hafnarfjarðarbæjar 

Hliðstæð aðferð fyrir foreldra og aðra sem koma að uppeldi

PMTO, sem stendur fyrir Parent Management Training – Oregon aðferð, er hliðstæð aðferð og SMT-skólafærni en hér er um að ræða aðferð fyrir foreldra og aðra sem koma að uppeldi. PMTO er gagnreynd aðferð sem dregur úr hegðunarerfiðleikum barna og unglinga og eflir foreldra í hlutverki sínu. Námskeiðsleiðir í PMTO eru þrjár. Í fyrsta lagi eru það PMTO foreldranámskeið sem er 8 vikna námskeið, ætlað foreldrum barna með vægan vanda. Í öðru lagi er boðið upp á PTC námskeið (e. parent through change) sem er PMTO meðferðarhópur og ætlað foreldrum barna þar sem vandi er orðinn nokkur en þó ekki verulegur. Að lokum eru PMTO einstaklingsmeðferðir þar sem meðferð er sniðin eftir þörfum foreldra hverju sinni. Einstaklingsmeðferðir henta foreldrum barna þar sem vandi er orðinn verulegur og foreldrar eru að þiggja þjónustu frá t.d. barnavernd og BUGL. Í öllum námsleiðum er um að ræða sama námsefni, en misjafnt eftir leiðum hversu hratt er farið yfir efnið og hversu mikla eftirfylgd foreldrar fá á meðan á námskeiði/meðferð stendur. Hjá Hafnarfjarðarbæ hafa um nokkurt skeið verið í boði PMTO foreldranámskeið og hefur eftirspurn verið umfram framboð. Á skólaárinu 2018-2019 var mikið lagt upp úr því að ná niður biðlistum sem myndast höfðu á hópnámskeið fyrir foreldra. Það hefur tekist með auknum fjölda námskeiða og nú er svo komið að biðlistinn er nær enginn.