Fréttir
Best skreyttu húsin í Hafnarfirði 2019

24. des. 2019

Á Þorláksmessu voru verðlaun veitt fyrir best skreyttu húsin og best skreyttu götuna í Hafnarfirði. Hafnfirðingar og aðrir áhugasamir voru í upphafi desembermánaðar hvattir til að setja upp stóru jólagleraugun og senda ábendingu um það hús í Hafnarfirði sem þykir bera af í jólaskreytingunum þetta árið.

 

Furuvellir 13-25 er best skreytta gatan í annað sinn og fær hinn margrómaða jólaskjöld. Gatan er einstaklega jólaleg og falleg og samstaða greinilega góð hjá íbúum því allir taka þátt í að skreyta.

Hlíðarbraut 5 fékk viðurkenningu fyrir fallega og smekklega skreytingu á snyrtilegu húsi í grónu hverfi.

Hellisgata 34 fékk viðurkenningu í annað sinn og má segja að eigendur þess húss fylli götuna sannri jólagleði því nánast allt er skreytt sem hægt er að skreyta og meira að segja bíllinn, sem stendur í hlaðinu, hefur verið skreyttur.

Brattakinn 17 fékk viðurkenningu fyrir fallega skreytingu í Kinnunum þar sem jólaljósin lýsa fallega upp og jólasveinarnir í garðinu gefa ævintýrlegan blæ.

Svalbarð 2 fékk viðurkenningu fyrir líflega og hressandi skreytingu á horninu á Svalbarði og Móabarði sem tekur vel á móti gestum og gangandi sem fara um götuna. Mikill metnaður í skreytingum og mikið úrval af seríum. Íbúar á Svalbarði 2 fengu gjafabréf frá HS veitum.

Suðurgata 9 fékk viðurkenningu fyrir framtaksemi í skreytingum. Garðurinn er einstaklega fallega skreyttur og lífgar bæði uppá götuna og eins fyrir þá sem leið eiga um fótgangandi því það er mjög gaman að gægjast inní garðinn og sjá hann smekklega skreyttan. Hér hefur mörgum bæjarbúanum verið boðið til að njóta og upplifa og greinilegt að íbúar hafa mjög gaman af að gera fallegt í kringum sig.

 

Afhending verðlauna og viðurkenninga fór fram í Jólaþorpinu á Þorláksmessu og var val í höndum Menningar- og ferðamálanefndar Hafnarfjarðarbæjar.

 

 

 

Hafnarfjarðarbær óskar öllum hlutaðeigandi innilega til hamingju!