Fréttir
Best skreyttu húsin í Hafnarfirði

26. des. 2018

Á Þorláksmessu voru verðlaun veitt fyrir best skreyttu húsin, best skreyttu götuna og best skreytta fjölbýlishúsið í Hafnarfirði. Hafnfirðingar og aðrir áhugasamir voru í upphafi desembermánaðar hvattir til að setja upp stóru jólagleraugun og  senda ábendingu um það hús í Hafnarfirði sem þykir bera af í jólaskreytingunum þetta árið. 

Íbúar á Hnoðravöllum 7 hlutu fyrstu verðlaun og þar með gjafabréf frá HS veitum fyrir best skreytta húsið. Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir 2. og 3. sæti og voru það Hellisgata 34 og Þrastarás 11 sem hlutu þau heiðurssæti.  Furuvellir 13-25 var valin best skreytta gatan og hefur skilti þegar verið sett upp við götuna með viðurkenningunni. Herjólfsgata 32-34 fékk svo viðurkenningu fyrir að vera best skreytta fjölbýlishúsið. 

Afhending verðlauna og viðurkenninga fór fram í Jólaþorpinu á Þorláksmessu og var val í höndum Menningar- og ferðamálanefndar Hafnarfjarðarbæjar.

Hafnarfjarðarbær óskar öllum hlutaðeigandi innilega til hamingju með verðlaun og viðurkenningar!