Fréttir • Img_7921

Bæklingar um mikilvægi lesturs

25. sep. 2018

Bæklingar um mikilvægi þess að lesa fyrir börn hafa nú litið dagsins ljós. Bæklingarnir, sem tengjast læsisstefnu Hafnarfjarðar, verða aðgengilegir víða t.d. í leikskólunum, heilsugæslustöðvunum, hjá dagforeldrum, á frístundaheimilunum og á Bókasafni Hafnarfjarðar. Bæklingurinn er til á íslensku, ensku og pólsku. 

Lestur er lífsins leikur

Læsisstefna Hafnarfjarðar er samfélagslegt verkefni þar sem leik- og grunnskólar, ásamt foreldrum og ýmsum stofnunum bæjarins, taka höndum saman um að efla málþroska og læsi barna. Tilgangur þess að efla læsi er að nemendur geti lesið sér til gagns og ánægju við lok grunnskólagöngu. Sett eru viðmið um æskilegan árangur. Lögð er áhersla á að veita öllum nemendum kennslu við hæfi. Starfsfólk leik- og grunnskóla velur árangursríkar kennslu - aðferðir sem stuðla að því að læsismarkmiðum sé náð.

Mikilvægi fyrstu áranna

Grunnur að lestrargetu barna er lagður strax á fyrstu æviárunum, þegar máltakan á sér stað. Foreldrar eru fyrstu kennarar barna sinna og stuðla að því að börnin tileinki sér móðurmálið á árangursríkan hátt. Rannsóknir sýna að ef lesið er fyrir börn frá unga aldri eflir það málþroska þeirra og orðaforða og eykur þannig velgengni þeirra í námi síðar á ævinni. Það er því mikilvægt að foreldrar lesi daglega fyrir börn sín frá unga aldri. Einnig er mikilvægt að halda áfram að lesa fyrir börnin þó að þau séu farin að lesa sjálf. 

Leggjum grunninn heima

Notaleg lestrarstund með foreldrum skapar áhuga fyrir lestri. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:

 • Ræðið við barnið um bókina, sögupersónur og myndskreytingar
 • Vekið eftirvæntingu og forvitni með því að spyrja spurninga út frá efni og myndum
 • Vekið athygli á ritmálinu, t.d. með því að renna fingri undir textann á meðan lesið er
 • Hvetjið barnið til að taka þátt í lestrinum, t.d. þegar sama orð eða texti er endurtekinn
 • Hafið bækur sýnilegar á heimilinu
 • Kennið barninu vísur og þulur
 • Hvetjið barnið til að “þykjustulesa” með sínum eigin orðum og “þykjustuskrifa” með eigin skrift
 • Lesið ykkur til ánægju og segið börnunum frá bókunum sem þið eruð að lesa

Að lesa fyrir börn:

 • eflir málþroska
 • eykur orðaforða
 • stuðlar að góðum lesskilningi
 • örvar ímyndunaraflið
 • vekur forvitni 
 • eykur lestraráhuga 
 • bætir einbeitingu
 • eflir vellíðan
 • eykur sjálfstraust 
 • er fræðandi 

Sjáumst á bókasafninu!

Öll börn yngri en 18 ára fá ókeypis bókasafnsskírteini á Bókasafni Hafnarfjarðar.  Ferð á bókasafnið er hin besta skemmtun fyrir alla fjölskylduna og þar er fjölbreytt efni fyrir börn, s.s. tímarit, myndabækur, léttlestrarbækur, vísnabækur, ævintýri, fræðibækur og hljóðbækur.