Fréttir
  • Bad2

Badmintonfélagið tekur við rekstri Íþróttahússins

28. okt. 2019

Um helgina skrifuðu Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Hörður Þorsteinsson formaður Badmintonfélags Hafnarfjarðar undir rekstrarsamning vegna yfirtöku Badmintonfélagsins á rekstri Íþróttahússins við Strandgötu. Badmintonfélagið hélt nú um helgina upp á 60 ára starfsafmæli sitt en afmælið sjálft var 7. október sl. Rósa færði félaginu gjöf frá Hafnarfjarðarbæ af þessu tilefni.

Í dag eru eingöngu deildir í Badmintonfélaginu að æfa íþróttir í húsinu og hefur iðkendafjöldi félagsins aukist síðustu ár. Öll hefðbundin notkun á húsinu breytist lítið við breytt rekstrarfyrirkomulag og íþróttakennsla Öldutúnsskóla og Flensborgar verður óbreytt. 

Vilja stuðla að vexti félagsins

Samningurinn sem undirritaður var hljómar upp á sömu upphæð og það myndi kosta Hafnarfjarðarbæ að reka húsnæðið og því er ekki um kostnaðarauka að ræða. Svipaður samningur var gerður við Fimleikafélagið Björk fyrir um fjórum árum og hefur sá samningur verið jákvæður fyrir starfsemi Bjarkanna. Þessi samningur er til tveggja ára til að byrja með. Badmintonfélagið sér mörg tækifæri fólgin í því að sjá um rekstur hússins sem felast m.a. í því að nýta húsið enn betur og fá þannig auknar leigutekjur. Markmið þeirra er þó fyrst og fremst að veita iðkendum sínum enn betri þjónustu og stuðla að vexti félagsins. Öllum starfsmönnum hússins verður boðið að vinna áfram í þessu fornfræga húsi. Hafnarfjarðarbær mun áfram sem eigandi hússins sjá um stærra viðhald þess. Núna er verið að laga framhliðina sem snýr að höfninni og þar er verið að endurnýja glugga og steinklæðningu.