Fréttir
  • IMG_2651

Ávarp fjallkonu Hafnarfjarðar 2017

19. jún. 2017

Eva Ágústa Aradóttir var fjallkona Hafnarfjarðarbæjar á þjóðhátíðardaginn. Eva er fyrsta transkonan sem gegnir hlutverki fjallkonu við opinber hátíðarhöld. Eva, sem er Hafnfirðingur í húð og hár, las ljóð eftir Bryndísi Björgvinsdóttur. Fjallkonan er tákn eða kvengervingur Íslands. Fjallkonan kom fyrst fram á Íslendingadeginum í Winnipeg í Kanada 1924 og eftir lýðveldisstofnun á Íslandi 1944 hefur kona í skautbúningi jafnan flutt fjallkonuljóð við hátíðahöld 17. júní.

Fjallkona2017

Þjóðhátíðarljóð/Ávarp fjallkonu í Hafnarfirði 2017

Viltu enn
teikna í Lækinn
sólarljós
og jökulsorfinn Hamar,
máv og svan – andlit okkar.

Viltu enn
vefa í hafið
bæinn minn
og í bláan fald þinn,
fisk og bát – dagana okkar.

------------

Ekki aðeins eitt fjall,
ein heimsókn
eða eitt stakt örnefni.
Heldur heilt landslag,
þúsund brautir
og enn fleiri dvalarstaðir.

Við sem spjöllum við hraunið
eigum samskipti á skrýtnu tungumáli
sem aldrei verður lýst á blaði.

Hraunið kennir okkur allt um þolinmæði,
gefur í skyn; að sálin sé ekki í líkamanum,
– heldur sé líkaminn á sálinni –
að sálin sé það – margbrotin og allskonar.
Og að þannig haldi lífið áfram
í heilu landslagi, þúsund brautum – og enn fleiri dvalarstöðum.

---

Viltu enn
sverfa í hraunið
vistkerfi
og í mosa og lyng,
landslag og minningar – líkama okkar.

Bryndís Björgvinsdóttir