Fréttir
 • Hopurinn1

Áskorun um aukið samstarf og eflingu forvarna barna

30. nóv. 2018

Á dögunum var haldið vel sótt málþing um forvarnir í Flensborgarskóla undir yfirskriftinni „Ekki barnið mitt“. Að málþingi stóð foreldraráð Hafnarfjarðar sem er samráðsvettvangur foreldrafélaga í grunnskólum Hafnarfjarðar og málsvari foreldra grunnskólabarna í Hafnarfirði. Hlutverk foreldaráðs er að vinna að sameiginlegum málefnum skólanna og gefa umsagnir um ýmis mál er varða skóla- og fjölskyldumál og vinnur í nánu samstarfi við Hafnarfjarðarbæ. Á málþinginu ræddi Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar m.a. um hafnfirska unglinga og foreldrarölt. Rafn M. Jónsson, verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna hjá Landlæknisembætti um forvarnir sem virka, Þóra Björnsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar SÁÁ um foreldrið til virkni auk þess sem Hildur Pálsdóttir móðir fíkils sagði sína sögu. Í lok þings skrifuðu þátttakendur undir svohljóðandi ályktun stjórnar foreldraráðs Hafnarfjarðar:

„Stjórn foreldraráðs Hafnarfjarðar leggur til að Hafnarfjarðarbær stórefli forvarnir í samvinnu við fagaðila, lögreglu og foreldra. Þá er hvatt til þess að starfsemi Götuvitans verði aukin verulega og úrræðum fyrir börn í vanda fjölgað“.

Bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, fræðslustjóri og íþrótta- og tómstundafulltrúi tóku á móti ályktun með undirskrift um 100 þátttakenda á málþingi frá fulltrúum í stjórn foreldraráðs. Bæjarstjóri, Rósa Guðbjartsdóttir, fagnaði framtakinu og tók ánægð á móti áskoruninni enda áform og vilji til áframhaldandi eflingar og þróunar forvarnarstarfs mikill og það í samstarfi við alla hlutaðeigandi aðila. Þegar eru til skoðunar nokkur ný þróunarverkefni m.a. með lögreglunni og geðfræðslufélaginu Hugrúnu auk þess unnið er að stofnsetningu á nýju ungmennahúsi. Í kjölfar afhendingar á áskorun hefur jafnframt verið ákveðið að stofna starfshóp um forvarnir og verður það gert á næsta fundi fræðsluráðs Hafnarfjarðarbæjar. 

Forvarnir byrja hjá fjölskyldunni

Eins og fram kemur í forvarnarstefnu Hafnarfjarðar þá byrja forvarnir hjá fjölskyldunni og því er grundvallaratriði að hún standi traustum fótum. Öll starfsemi á vegum Hafnarfjarðarbæjar á svo að miða að því að tryggja jákvætt og hvetjandi umhverfi fyrir fjölskyldur. Fjölskyldan, skólinn og skipulagt félagsstarf eru þær stofnanir nútímans sem skipta meginmáli varðandi uppeldi barna og ungs fólks. Þessir þættir eru líklegir til að geta að minnkað vægi óæskilegra utanaðkomandi áhrifa og dregið úr eða minnkað áhættuhegðun. Því fleiri sem samverustundirnar og því betri sem tengsl barna og foreldra eru því minni líkur eru á að þau stundi áhættulífstíl. Einnig hefur skipulögð íþrótta- og tómstundastarfsemi jákvæð áhrif á lífsstíl barna og ungmenna. Mikilvægar stofnanir sem að forvörnum koma eru skólar, félagsmiðstöðvar, foreldrafélög, fjölskylduþjónustan, heilsugæsla, íþróttafélög, lögregla, trúfélög og félagasamtök auk formlegrar og óformlegrar starfsemi á vegum unglinga t.d. nemendafélög. Mikilvægt er að allir þeir sem sinna uppeldismálum með einum eða öðrum hætti vinni saman að því að tryggja að í Hafnarfirði sé fjölskylduvænt umhverfi.

Dæmi um þjónustu sem þegar er í boði hjá Hafnarfjarðarbæ og vert er að kynna:

 

 • BRÚIN – Barn| Ráðgjöf | Úrræði. Ný nálgun sem eflir stuðning og þjónustu við börn í leik- og grunnskólum bæjarins og hefur það að markmiði að auka lífsgæði barna, unglinga og fjölskyldna þeirra. Lögð er áhersla á að veita aukna þjónustu á fyrri stigum í gegnum lausnateymi leik- og grunnskóla sem hafa það hlutverk að kortleggja stöðu barns og leita sameiginlegra lausna, barni og fjölskyldu þess til stuðnings.
 • Frístundastyrkir. Mánaðarlega styrkir Hafnarfjarðarbær hvern iðkanda frá 6-18 ára aldurs til lækkunar á þátttökugjöldum um kr.  4.000.- með það að markmiði að gera börnum með lögheimili í Hafnarfirði kleift að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi óháð efnahag fjölskyldna og að efla íþróttastarf og annað forvarnastarf í Hafnarfirði. Einnig á styrkurinn að vinna gegn óæskilegu brottfalli í eldri aldurshópum iðkenda.
 • Foreldrarölt. Framkvæmd tengist hverjum skóla fyrir sig og er allajafna sú að bekkjarfulltrúar skipuleggja og taka að sér að manna röltið. Gengið er að kvöldi föstudags og/eða laugardags á bilinu 23:00-02:00 vítt og breytt um hverfið og þá sérstaklega á líklega samkomustaði ungmenna. Efla þarf foreldraröltið enn frekar.
 • Götuvitinn. Forvarnarstarf á vegum Hafnarfjarðarbæjar og er í samstarfi við foreldraröltið. Hlutverk Götuvitans er að sinna eftirlitsstarfi og miðar að því að finna þá unglinga sem teljast til áhættuhóps og aðstoða þá.
 • Sálfræðiþjónusta er veitt nemendum í grunnskólum í samræmi við þarfir og aðstæður. Sálfræðiþjónusta er veitt á grundvelli beiðna frá skóla eða foreldrum en samþykki foreldra verður ávallt að liggja fyrir. Tilefni beiðna geta verið margvísleg en sérstök áhersla er lögð á snemmtækt mat og greiningu á stöðu nemanda vegna náms, hegðunar og sálrænna erfiðleika. Einnig er veittur stuðningur við nemendur, foreldra og kennara í formi ráðgjafar, fræðslu og eftirfylgni. Í dag er starfandi einn sálfræðingur á hverja 800 nemendur en var einn á hverja 1200 nemendur fyrir nokkrum árum síðan. Biðlistar hafa styst til muna síðastliðin tvö ár og aukið svigrúm að opnast fyrir aukið forvarna- og námskeiðshald.
 • Fjölbreytt og sérhæfð fræðsla innan skólanna.  Kennarar, námsráðgjafar og hjúkrunarfræðingar bjóða upp á fjölbreytta kennslu sem m.a. snýr að lífsleikni, vímuvörnum, kynfræðslu og næringu. Samhliða hefur verið upp á jafningjafræðslu og fræðslu frá fyrirmyndum barna og ungmenna, tónlistarfólki, íþróttafólki og öðrum sem þekktir eru opinberlega.  Þannig hefur Jón Jónsson t.a.m. farið inn í 8.bekk með fræðslu um heilbrigðan lífstíl, munntóbak og rafrettur og Samtökin 78 með fræðslu um málefni hinsegins fólks á grunni jafnréttis og sjálfsagðra mannréttinda. Auk þess sem unnið er með verkefni á borð við KVAN, verkfærakista á miðsstigi grunnskóla og vináttuverkefni Barnaheilla í leikskólum.
 • Náms- og starfsráðgjöf.   Í hverjum skóla er starfandi námsráðgjafi sem sinnir náms- og starfsráðgjöf sem snúa m.a. að stuðningi við einstaka nemendum og vinnu við forvarnir 
 • Talmeinaþjónusta.   Börn sem eiga við frávik í máli og /eða tali að glíma eiga rétt á greiningu talmeinafræðings ásamt sérkennslu og stuðningi við nám í grunnskóla. Talmeinafræðingur veitir einnig ráðgjöf til starfsfólks grunnskóla. Foreldrar geta óskað eftir greiningu og ráðgjöf talmeinafræðings en í öllum tilvikum þarf skriflegt samþykki foreldra að liggja fyrir áður en greining fer fram.
 • Aukið framboð af námskeiðum. Búið að auka framboð af námskeiðum fyrir nemendur sem þurfa á ákveðinni aðstoð og þjónusta að halda. Um er að ræða námskeið m.a. vegna kvíða, félagsfærni og sjálfstyrkingar. Námskeiðin eru eitt af úrræðum sem standa til.
 • Félagsmiðstöð í hverjum skóla. Aðaláhersla  er lögð á fjölbreytt og skemmtilegt starf fyrir unglinga í 8.-10. bekk en boðið er upp á starf fyrir 5.-7. bekk a.m.k. einu sinni í viku. Félagsmiðstöðvar starfa við alla grunnskóla og eru að jafnaði opnar þrjú kvöld í viku.  
 • Músik ogmótor – sérhæfð félagsmiðstöð að Dalshrauni 10. Félagsmiðstöð sem snýst annars vegar um viðgerðir og viðhald á mótorhjólum og í raun öllum þeim tækjum sem hafa mótor. Hér geta unglingar á aldrinum 13-20 ára komið og fengið aðstöðu. Á staðnum eru öll helstu verkfæri og búnaður. Hins vegar músikhúsið þar sem til staðar eru níu æfingarrými fyrir hljómsveitir sem geta stundað æfingar alla daga frá 16:00 til 23:30. Frábær stökkpallur fyrir ungar og efnilegar hljómsveitir sem eru að stíga sín fyrstu skref.
 • Stuðningurí skóla. Börnum sem hafa sérþarfir í leik- og grunnskólum er veitt sérstök þjónusta til að styðja við nám þeirra tímabundið eða alla skólagönguna. Sá stuðningur getur ýmist verið veittur inni í deild/bekk samhliða almennri kennslu, í sérstökum kennslustofum með öðrum sérkennslunemendum, í sérdeildum innan grunnskólanna í Hafnarfirði eða í sérskólum utan bæjarins. Aðgangur að sérdeildum er háður beiðnum frá foreldrum og samþykki inntökuteymis hverrar sérdeildar. Aðgangur að sérskólum er háður samþykki sérfræðiþjónustu grunnskóla og skólastjóra viðkomandi sérskóla. Nemendur í Hafnarfirði sem sækja sérdeild, sérskóla og móttökudeild erlendra nemenda og búa ekki í því skólahverfi sem sérdeildin er í, fá akstur í og úr skóla. Þá hefur bærinn samstarf við önnur sveitarfélög um möguleg úrræði í öðrum skólum, t.d. Klettaskóla.
 • Sérdeildir. Sérdeildir eru ætlaðar nemendum úr öllum grunnskólum bæjarins, ekki einungis þeim skóla sem deildin starfar í. Sérdeildir eru starfandi í eftirfarandi skólum: Lækjarskóli. Sérdeild fyrir nemendur með þroskaraskanir í 1. - 10.bekk og fjölgreinadeild fyrir nemendur í 9. og 10. bekk. Fjölgreinadeild er fyrir nemendur sem af ýmsum ástæðum hefur ekki farnast vel í almennum skóla (námserfiðleikar, einelti og hegðunarerfiðleikar) og er mikil áhersla lögð á verklegt nám, félagsfærni og samstarf við fjölskyldur og milli sviða. Setbergsskóli. Sérdeild fyrir nemendur með alvarlegar raskanir á einhverfurófi í 1. - 10. bekk. Öldutúnsskóli. Sérdeild fyrir nemendur með vægar þroskaraskanir/alvarlega námserfiðleika í 8. - 10. bekk. Hvaleyrarskóli. Móttökudeild fyrir börn í leit að alþjóðlegri vernd.
 • PMTO foreldrafærni og SMT skólafærni. PMTO er gagnreynd aðferð og meðferðarprógramm sem aðstoðar að vinna með hegðunarerfiðleika barna og unglinga og eflir uppalendur í hlutverki sínu. Fjölbreytt úrræði, námskeið og ráðgjöf er í boði fyrir foreldra og forsjáraðila og auk þess hefur aðferðin verið innleidd í grunnskóla Hafnarfjarðar og átta leikskóla undir formerkjum SMT-skólafærni. SMT er hliðstæð aðferð þar sem lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr hegðunarvanda með því m.a. að kenna og þjálfa félagsfærni, hvetja æskilega hegðun og samræma viðbrögð alls starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun.
 • Jafningjafræðslan Competo. Hópur sem fræðir um 600 starfsmenn Vinnuskóla Hafnarfjarðar um það sem brennir á þeim hverju sinni.
 • Heilsubærinn Hafnarfjörður – fyrir alla fjölskylduna. Í heilsustefnu Hafnarfjarðar er eitt aðalmarkmiðið að hlúa að almennri vellíðan íbúa, andlegri og líkamlegri, á öllum aldri og styrkja og efla sjálfsmynd og góða líðan og það í samstarfi við hlutaðeigandi aðila, samtök og stofnanir. Heilsubærinn hefur þegar staðið fyrir núvitundarkvöldi, heilsubótargöngum, breyttu mataræði innan leik- og grunnskóla, fræðslu fyrir foreldra og spilagjöf til allra íbúa með hugmyndum að samverustundum og –stöðum. Mun á nýju ári m.a. standa fyrir jafningjafræðslu í geðrækt innan grunnskólanna, ókeypis heilsufarsmælingum fyrir alla, áframhaldandi heilsubótargöngum, útsendingu á næringarseglum og áframhaldandi vinnu með leik- og grunnskólum Hafnarfjarðar svo fátt eitt sé nefnt.