Fréttir
  • _A124158

Ársreikningur 2015 til umræðu

13. apr. 2016

Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2015 verður lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í dag. Hækkun launa vegna starfsmats og nýrra kjarasamninga ásamt lífeyrisskuldbindingum vega þungt og skýra að mestu frávik frá fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir 2015. Fyrsti ársfjórðungur 2016 sýnir að úttekt og rekstrarrýni síðla árs 2015 mun skila jákvæðum rekstrarniðurstöðum á yfirstandandi rekstrarári.

Laun, launatengd gjöld og lífeyrisskuldbindingar vega þungt í rekstri

Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar árið 2015 sýnir neikvæða rekstrarniðurstöðu um 512 milljónir króna. Helstu frávik frá áætlun, sem gerði ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 219 milljónir, má einkum rekja til hækkunar launa vegna starfsmats og nýrra kjarasamninga sem nemur um 595 milljónum króna umfram áætlun. Lífeyrisskuldbinding sveitarfélagsins hækkaði um 1.042 milljónir króna eða um 435 milljónir króna umfram áætlun. Laun, launatengd gjöld og breyting lífeyrisskuldbindingar eru stærstu útgjaldaliðir sveitarfélagsins og námu þeir í heild 11.372 milljónum króna sem er 1.030 milljónum krónum hærra en áætlun gerði ráð fyrir. Annar kostnaður var 7.441 milljón, 485 milljónum umfram áætlun. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir nam 1.860 milljónum króna. Afskriftir námu 877 milljónum króna og fjármagnsliðir 1.496 milljónum króna sem er 344 milljónum króna undir áætlun. Veltufé frá rekstri nam um 953 milljónum króna sem er 1.288 milljónum króna lægra en áætlun gerði ráð fyrir. Tekjur voru 459 milljónum umfram áætlun eða um 20.673 í heild. 

Hærri heildarskuldir en lægra skuldahlutfall

Heildarskuldir bæjarins hækkuðu um 417 milljónir króna á árinu vegna hækkunar lífeyrisskuldbindingar. Skuldahlutfall sveitarfélagsins heldur þó áfram að lækka og náði það 194% um áramót. Skuldahlutfallið var hæst 294% árið 2009. Skuldaviðmið var komið í 170% í lok árs 2015, viðmið sem var 274% árið 2009. Rekstur málaflokka var yfir áætlunum sem má að verulegu leyti rekja til launahækkana ársins. Stærsti málaflokkur Hafnarfjarðarbæjar er fræðslu- og frístundaþjónusta en til hans var varið um 9.814 milljónum króna á árinu 2015, til fjölskylduþjónustu um 2.930 milljónum króna og æskulýðs- og íþróttamála um 1.730 milljónum króna. Heildareignir í lok árs námu samtals 48.480 milljónum króna og hafa þær lækkað um 282 milljónir milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 40.184 milljónum króna.

Úttekt og umbætur í rekstri á nýju rekstrarári 

Rekstur ársins 2015 var þungur.  Ákveðið var að ráðast í rekstrarúttekt  til að uppræta viðvarandi rekstrarvanda og opna á tækifæri til viðsnúnings. Umbótaáætlun í kjölfar úttektar og fjárhagsáætlun fyrir 2016 gera ráð fyrir slíkum viðsnúningi og að rekstur samstæðu verði jákvæður um sem nemur 361 milljón króna í lok yfirstandandi rekstrarárs. Frá því í lok síðasta rekstrarárs hefur markvisst verið unnið með niðurstöður úttektar og standa vonir til þess að með áframhaldandi vinnu, ábyrgð, festu og utanumhaldi þá muni fjárhagsstaða sveitarfélagsins vænkast til muna. Á næstu vikum fara í auglýsingu framkvæmdir og uppbygging á rúmlega 210 íbúðum í nýju Skarðshlíðahverfi, atvinnulóðir á Völlum og við Hellnahraun, Kapelluhraun og Selhraun auk þess sem verið er að skoða hvar fleiri möguleikar og tækifæri liggja til frekari uppbyggingar. Nýr grunnskóli er í undirbúningi og leikskóli í byggingu á Völlunum, nýtt hjúkrunarheimili á Sólvangi og íþróttahús á Ásvöllum, allt til að svara aukinni eftirspurn og þörf á svæðinu. Fjöldi fyrirtækja hefur sest að í og við Hellnahraun og eru fleiri fyrirtæki væntanleg á svæðið enda um að ræða stækkandi og spennandi iðnaðarsvæði sem býður upp á mjög mikla möguleika. Rík áhersla hefur verið lögð á að tryggja alla mikilvæga innviði, þ.m.t. að ríkið flýti framkvæmdum við mislæg gatnamót á mótum Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar. Vaxandi fjöldi íbúa og aukin starfsemi eykur umsvif og þar með tekjur bæjarins.  Áframhaldandi verkefni sveitarfélagsins næstu mánuði verður að ná enn betri tökum á útgjöldum og niðurgreiðslu skulda þannig að auka megi eigið fé og þar með ábyrgari fjárfestingar. Næstu mánuðir fara í það að fylgja fleiri tillögum úttektar eftir sem allar miða að því að efla og bæta þjónustu við íbúa og starfandi fyrirtæki í bænum með ábyrgum hætti.

Ársreikning Hafnarfjarðarkaupstaðar 2015 er að finna hér