Fréttir  • APPOLO-LOGO

Appolo er listahátíð fyrir ungt fólk skipulögð af ungu fólki

19. sep. 2022

Allur október verður undirlagður af Appolo - listahátíð unga fólksins

Appolo, listahátíð ungs fólks er fyrsta listahátíðin sem skipulögð er fyrir ungt fólk og af ungu fólki í Hafnarfirði. Appolonafnið þykir afar viðeigandi þar sem það litríka lakkrískonfekt var einu sinni framleitt í sama húsi og hýsir Músik & mótor í dag.  Allur októbermánuður verður undirlagður af Appolo. 

Opnunarhátíð föstudaginn 30. september á tveimur stöðum


Skapandi skrif, vegglistagerð, förðun, ljósmyndun, málun og Stelpur rokka!  

Opnunarhátíð verður haldin föstudaginn 30. september í báðum ungmennahúsum bæjarins; Hamrinum og Músik & mótor. Fyrstu fjórar helgarnar í október eru svo undirlagðar af vinnusmiðjum af ýmsum toga og getur allt ungt fólk á aldrinum 13-25 ára skráð sig til leiks. Boðið verður upp á vinnustofur í skapandi skrifum, vegglistagerð, förðun, ljósmyndun, málun o.fl. Einnig verður boðið upp á vinnusmiðjur í samstarfi við samtökin Stelpur rokka! og eru öllum stelpum (sís og trans), trans strákum, kynsegin og intersex ungmennum sem hafa áhuga á tónlist, boðið að taka þátt.

Til að dæmið gangi upp þarf að miða við ákveðinn lágmarksfjölda og þátttökukostnað sem þó verður haldið í algjöru lágmarki eða að hámarki kr. 4.000.- Hægt er að sækja um námstyrk með því að senda tölvupóst með styrkumsókn á: mgm@hafnarfjordur.is. Síðasta helgin í október verður haldin opin uppskeruhátíð þar sem íbúar geta komið á sýningar og kynnt sér afurðir hópsins. 

Opnunarhátíð í Músik & mótor föstudaginn 30. september 

Opnun vegglistaverks eftir Þorbjörgu Signý í Músik & mótor, Dalshrauni 10, á milli 17-19 föstudaginn 30. september. Boðið upp á léttar veitingar og hægt að skoða allt það sem Músik & mótor hefur upp á að bjóða.

Opnunarhátíð í Hamrinum föstudaginn 30. september 

Tónleikar í Hamrinum milli 20-23 þar sem fram koma m.a. Little Menace og Jón Möller. 

Vinnusmiðjur á Appolo listahátíðinni - allan október 


Hátíðin er m.a. styrkt af Hafnarfjarðarbæ í gegnum styrk frá menningar- og ferðamálanefnd og er það einlæg von skipuleggjenda að þátttakan slái öll met og að þessi listahátíð ungs fólks í bænum muni festa sig í sessi. 

HAMARINN er virkur á FACEBOOK  og Instagram - allar upplýsingar verða birtar á samfélagsmiðlum Hamarsins 

Viðburður Appolo á Facebook