Fréttir  • Screen-Shot-2021-07-08-at-17.23.03

Annalísa og Katrín - skapandi sumarstörf

10. ágú. 2021

Listakonurnar og vinkonurnar, Annalísa Hermannsdóttir og Katrín Helga Ólafsdóttir, eru að vinna að gerð þriggja mismunandi tónlistarmyndbanda sem verða gefin út í lok sumars. Þær vinkonur vinna að þeim á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði.

IMG_3800

Mikið lagt í hið sjónræna efni

Eitt tónlistarmyndbandanna sem Katrín er hvað mest að vinna að þessa daganna, er handteiknað myndband fyrir draumkenndu rokk hljómsveitina Milkhouse, sem hún er meðlimur í. Annalísa, sem er nýlega útskrifuð úr LHÍ af sviðshöfundabraut, er að vinna sitt eigið tónlistarmyndband, sem tónlistarkonan Annalísa, með aðstoð Katrínar. Myndbandið hafa þær unnið saman í gömlu iðnaðarhúsnæði sem þær hafa gert upp og málað hvítt frá lofti til gólfs. Þær munu síðan báðar vinna að tónlistarmyndbandi fyrir K.óla, listamansnafn Katrínar, sem verður tekið upp víðsvegar um Hafnarfjörð.

128 handteiknaðar stakar myndir

Ferilinn á bak við gerð tónlistarmyndbands er fjölbreyttur. Katrín, sem er að vinna myndband fyrir lagið Snorkstelpan, eftir Milkhouse, er að handteikna um 128 stakar myndir, sem verða svo litaðar í tölvu. Með samsetningu allra stöku myndanna mun lokaútkoman sýna fallega sögu um littla stelpu sem er í pössun hjá afa sínum. En myndbandið á að túlka hversdagsleikann og hvernig yngri og eldri kynslóðir læra hver af annarri.

5D7F8927-D4F8-43B7-8ED9-7A6011A5A116

Sköpunarferlið sem Katrín þarf að fara í gegnum til að útbúa mynbandið inniheldur meðal annars að útbúa sjónrænt heildaryfirlit söguþráðsins, teikna grunnmyndir, taka grunnmyndirnar í gegn þrisvar sinnum, skanna þær inn, lita þær í tölvunni, setja myndirnar saman og gera þær að hreyfimyndum, klippa söguna saman og svo loks gefa myndbandið út.

Myndböndin verða aðgengileg í lok sumars

Það er hægt að fylgjast með þessum hæfileikaríku ungu tónlistarkonum meðal annars á Instagram reikningunum K.óla: https://hfj.is/vdypK7, Annalísa: https://hfj.is/P5jwDr og hljómsveitin Milkhouse: https://hfj.is/Ig5KTs. Þar auglýsa þær einnig viðburði og útgáfu á myndböndunum í lok sumars.

Skapandi sumarstörf eru hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar - níu verkefni sumarið 2021

Skapandi sumarstörf hjá Hafnarfjarðarbæ eru hluti af sumarstarfi Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Skapandi sumarstörf eru auglýst sérstaklega og býðst einstaklingum og hópum að skila inn með umsókn sinni hugmyndum að skapandi verkefnum sem eru til þess fallin að glæða bæinn enn meira lífi yfir sumartímann, gera hann enn skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Horft er sérstaklega til fjölbreytileika verkefna og þess að þau höfði til mismunandi aldurshópa og áhugasviða.