Fréttir
Andri Steinar Johansen Setbergskóla bar sigur út bítum lokakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

13. mar. 2018

Andri Steinar Johansen Setbergskóla bar sigur út bítum lokakeppni Stóru upplestrarkeppninnar sem fram fór núna undir kvöld í Hafnarborg í Hafnarfirði í. Keppnin var nú haldin í 22. skipti en keppnin í Hafnafirði var sú fyrsta sem haldin var en núna eru systur keppnir hennar haldnar um allt land. 

Eliza Reid forsetafrú og Lilja Alfreðsdóttir Menntamálaráðherra voru meðal gesta ásamt bæjarfulltrúum, bæjarstjóra Hafnarfjarðar og stoltum vinum og vandamönnum keppenda. Í öðru sæti var Krista Sól Guðjónsdóttir, Áslandsskóla og þriðja sætið hreppti Ísabella Alexandra Speight úr Öldutúnsskóla

Nemendur lásu upp ljóð og sögur að eigin vali en skáld keppninnar að þessu sinni eru Sigrún Eldjárn og Ólafur Jóhann Sigurðarson. Það var Ingibjörg Einarsdóttir, fyrrum skrifstofustjóri á Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar sem stýrði hátíðinni en hún hefur jafnframt haft umsjón með verkefninu í Hafnarfirði eins og hún hefur gert frá fyrstu hátíðinni sem haldin var vorið 1997.

Stóra upplestrarkeppnin hófst sem þróunarverkefni í grunnskólum Hafnarfjarðar árið 1996 en það ár kom Ingibjörg einnig til starfa á Skólaskrifstofuna. Keppnin var mótuð í samstarfi við grunnskóla í Hafnarfirði fyrsta skólaárið en síðan fjölgaði þeim sveitarfélögum sem taka þátt í keppninni. Núna árið 2016 taka allir grunnskólar á landinu þátt í keppninni sem hafa nemendur í 7. bekk. Fá ef nokkur verkefni hafa haft slíka útbreiðslu í íslenskum grunnskólum.