Fréttir
  • 20210815-_OA_9014

Amerískur fótbolti vinsæll í Hafnarfirði

13. sep. 2021

Ný íþrótt kynnt með heimsóknum í alla grunnskóla Hafnarfjarðar haustið 2021

Áhugamannaliðið Einherji hefur spilað amerískan fótbolta í fullorðins flokki síðan árið 2013. Vorið 2021 ákvað liðið að fara af stað með það verkefni að halda í fyrsta skipti á Íslandi mót í amerískum fótbolta fyrir aldurshópinn 13-17 ára. Með styrk frá Hafnarfjarðarbæ og Heilsubænum Hafnarfirði, gátu skipuleggjendur heimsótt alla eldri bekki í grunnskólum bæjarins, kynnt íþróttina fyrir áhugasömum ungmennum og leyft þeim að prófa. Haustið 2021 fá yngri hópar líka kynningu.

Tímabilið endaði með æsispennandi móti – því fyrsta sinnar tegundar á Íslandi

Áhugi barna og ungmenna í Hafnarfirði hefur ekki staðið á sér. Síðastliðinn vetur og í sumar fengu 13-17 ára ungmenni tækifæri til að taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi og að lokum móti á vegum Einherja. Fyrsta mánuðinn var spilaður svokallaður "Flag football" sem er góður grunnur fyrir byrjendur. Seinni mánuðinn tók svo við "Full contact" amerískur fótbolti og endaði tímabilið á æsispennandi móti um miðjan ágúst þegar U18 Sjóvá bikarinn var haldið í Egilshöll.

20210815-_A4A6918-Edit

Eitt af hlutverkum heilsubæjarins að ýta undir fjölbreytileika í hreyfingu og íþróttum

Vegna fjölda fyrirspurna frá yngri leikmönnum og foreldrum þeirra hefur verið ákveðið að skipuleggja samskonar mót fyrir 10-14 ára. Kynningar í grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar fara fram í september og æfingar hefjast í byrjun október. Verið er að ákveða æfingatíma og staðsetningu æfinga en vonir standa til þess aðstaða fáist á góðum stað í Hafnarfirði í ljósi þess að stór hluti iðkenda býr í Firðinum. Gengið er út frá því að þessi mót, bæði það sem haldið var síðastliðið sumar og nýtt mót séu komin til að vera enda um að ræða íþrótt með vaxandi fjölda iðkenda. Vaxandi vinsældir má einnig að einhverju rekja til þess að að NFL, sem er stærsta deild Bandaríkjanna, er orðin mun sýnilegri í íslenskum miðlum og áhorf á t.a.m. Super Bowl orðið mjög mikið á Íslandi.

Heilsubærinn Hafnarfjörður vill með ákvörðunum sínum og stuðningi við sértæk og ný verkefni ýta undir fjölbreytileikann gagngert til að auka líkurnar á því að fleiri börn og ungmenni finni sína hreyfingu og íþrótt. Ef áhugi og skemmtun stýra vali aukast líkur á áframhaldandi ástundun.