Fréttir
  • 30380-c25001a4_945_556

Allir unglingar fá spjaldtölvur

7. feb. 2018

Á þessu skólaári fá allir nemendur í 8.-10. bekkjum grunnskólanna í Hafnarfirði iPad  til persónulegrar notkunar í skólastarfinu og til notkunar heima fyrir. Spjöldin hafa verið að fara í dreifingu til nemenda frá því fyrir jól og eru að komast til allra nemenda þessa dagana. Enda um mikinn fjölda spjalda að ræða eða nálægt 1000 spjöld sem talsverður undirbúningur hefur farið í að gera spjöldin aðlögðuð að skipulagi og námskerfum skólanna. Með tilkomu spjaldanna gefast nemendum, og kennurum sömuleiðis, ný tækifæri og möguleika að nýta sér betur tækninnar og internetsins í námi og kennslu.

Kennarar á elsta stigi grunnskóla hafa þegar fengið iPad spjöld og aðrir kennarar í grunnskólum bæjarins eiga von á spjöldum núna á vorönn 2018.                                                                                                                                                                 

Frá hausti 2018 eru væntanleg spjöld fyrir nemendur á miðstigi (5.-7. bekk) og verða þau spjöld afhent um leið og uppsetningu þeirra lýkur á næsta skólaári.

Samhliða dreifingu spjaldanna til nemenda og starfsfólks er farin í gang aukin fræðsla. Kennsluráðgjafar í upplýsingatækni í grunnskólunum og kennslu­fulltrúi í upplýsingatækni á skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustunnar skipuleggja og annast fræðsluna að mestu auk þess sem aðrir eru kallaðir til eftir þörfum. Það er gert á þeirri forsendu að með nýrri tækni er nauðsynlegt að læra vel á tæknina og uppgötva nýja mögu­leika í því hvernig tæknin getur nýst til að breyta kennsluháttum og stuðlað að námi. Það gerir enginn nema kennarinn sjálfur og nemendur hans. Með spjöldunum er verið að færa nemendum ný verkfæri í námi og kennurum nýjustu tækni sem möguleg er til að efla skóla­starfið. Tilkoma spjalda færir möguleika á nýjum kennsluháttum sem nefndir hafa verið „1:1 kennslufræði“, þ.e. eitt tæki og einn nemandi sem gefur aukna möguleika að persónulegri aðlögun í námi út frá einstaklingum og námsefni.

Framundan er því margvísleg vinna sem tengist  kennslu með nýrri tækni og notkun iPad. Það er m.a. fjölbreytt fræðsla, frekari stefnumótunarvinna, þátttaka í ráðstefnum og ferðum og fleira sem styður við innleiðingu stafrænnar tækni í skólastarfi grunnskóla í Hafnarfirði á næstu árum.